Stríðni í dauðastríði

Greinar

Við sjáum nú, hversu mikils þjóðin missti, er Jón Baldvin Hannibalsson varð ekki bankaráðherra í ríkisstjórninni og fékk ekki tækifæri til að kvelja Seðlabankann eins mikið og sá banki á skilið fyrir langvinna óstjórn á peninga- og gengismálum þjóðarinnar.

En fjármálaráðherra gerði vel þá daga, sem hann leysti af flokksbróður sinn í embætti bankaráðherra. Hann náði að vekja almenna athygli á, að Seðlabankanum tókst að hámarka skaða þjóðarinnar af nýjustu gengislækkuninni, er fuku 2,5 milljarðar gjaldeyris.

Svo er komið, að allir, sem verulegra hagsmuna eiga að gæta, vita nákvæmlega, hvenær gengi krónunnar verður fellt. Það er þegar seðlabankastjóri fjölyrðir sem mest um, að það verði alls ekki fellt, af því að það leysi alls engan vanda, heldur framleiði bara verðbólgu.

Hrun gjaldeyrisforðans er áminning til okkar um, að ekki borgar sig að leyfa ríkisstjórn og Seðlabanka að ráðskast með gengi krónunnar og láta það hrapa í áþreifanlegum stökkum. Skynsamlegra er að taka upp frjálst gengi og leyfa markaðinum að ráða útkomunni.

Hrun gjaldeyrisforðans er einnig áminning um, að Seðlabankinn er óþörf og skaðleg stofnun. Hann ofstjórnar ekki aðeins gengisskráningunni, heldur skipuleggur hann líka verðmætabrennslu í svokallaðri frystingu sparifjár, sem hefur farið vaxandi upp á síðkastið.

Fjármálaráðherra hefur ekki aðeins tekizt að gera Seðlabankann hlægilegan, heldur einnig utanríkisráðherra, sem enn einu sinni hefur verið staðinn að ósannindum og bakreikningum út af Leifsstöð. Það var þarft verk, ekki síður en uppákoman út af Seðlabankanum.

Þegar Leifsstöðvaruppgjörið fór fram með látum á Alþingi í haust, var fullyrt, að öll kurl væru komin til grafar. Nú hefur hins vegar komið í ljós, sem fjölmiðlar og stjórnarandstaða héldu þá fram, að enn væri lumað á bakreikningum, sem ekki væru komnir fram.

Framtak ráðherrans út af Seðlabanka og Leifsstöð er hið eina jákvæða, sem sézt hefur eða heyrzt til ríkisstjórnarinnar í margar vikur. Efnahagsráðstafanirnar svokölluðu, sem menn eru að reyna að skilja, verða engin rós í hnappagatið, heldur nagli í líkkistuna.

Komið hefur í ljós, að í fyrra voru raunvextir sparireikninga neikvæðir um 1%, þrátt fyrir ýmis gylliboð bankanna. Nú er verðbólgan í þann mund að rjúka úr 16% í 40% og þá er ríkisstjórnin einmitt að þrengja möguleika sparenda á jákvæðum raunvöxtum.

Afleiðing aðgerða ríkisstjórnarinnar verður sú, að menn munu draga sparifé sitt úr bönkum og öðrum fjármálastofnunum og nota það í verðbólgufjárfestingu, svo sem tíðkaðist hér fyrr á árum, áður en farið var að streitast við að koma á raunvöxtun sparifjár.

Þetta mun hafa afar hættuleg áhrif á bankakerfið. Landsbankinn er mjög illa stæður um þessar mundir og hefur orðið að fá örþrifa-fyrirgreiðslu í Seðlabankanum. Erfitt verður fyrir Landsbankann að mæta sparifjárflóttanum, sem nú er að hefjast af þunga.

Í heild bendir efnahagsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar til, að hún geri sér litla grein fyrir afleiðingum aðgerðanna. Yfirlýsingin er óljós og loðin, svo sem búast má við, þegar verið er að sætta ósamrýmanleg sjónarmið í stað þess að hætta hinu sjálfdauða stjórnarsamstarfi.

Nytsamleg stríðni fjármálaráðherra er eini ljósi punkturinn í allt of hægu dauðastríði ríkisstjórnar, sem hefur setið lengur en sætt er, þjóðinni til mikils tjóns.

Jónas Kristjánsson

DV