Stríðsglæpirnir kærðir

Punktar

George Monbiot fagnar í Guardian, að Thomas Franks, hershöfðingi Bandaríkjanna, hefur í Belgíu verið kærður fyrir stríðsglæpi, sem framdir voru í innrásinni í Írak. Kært er fyrir fjórar tegundir stríðsglæpa. Í fyrsta lagi fyrir að varpa 1.500 klasasprengjum, sem enn eru að drepa börn, er fikta í þeim. Í öðru lagi fyrir að skjóta á óvopnaðan almenning á mótmælafundum. Í þriðja lagi fyrir að eyðileggja innviði þjóðfélagsins af ásettu ráði, svo sem raflínur og vatnshreinsistöðvar. Í fjórða lagi fyrir að halda ekki uppi lögum og reglu á stöðum, þar sem fyrri yfirvöld voru hrakin frá völdum, fyrir að láta sjúkrahús drabbast niður og fyrir að skjóta á vel merkta sjúkrabíla. Allt eru þetta brot á Genfarsamþykktum um stríðsglæpi. Þótt kæran muni ekki ná fram að ganga, telur Monbiot, að hún hafi táknrænt gildi. Hún rifji upp þá staðreynd, að Bandaríkin séu glæparíki, sem ekki fari að alþjóðalögum. Hann rekur í greininni ýmis dæmi um það.