Stríðshanzkanum kastað

Greinar

Siv Friðleifsdóttir hefur kastað stríðshanzkanum framan í þjóðina. Hún sagði í fyrradag, að Eyjabökkum yrði að fórna fyrir byggðasjónarmið. Þar með eru orðin kaflaskil í styrjöldinni um verndun gróðurvinja hálendisins. Tími orða er liðinn og tími aðgerða er hafinn.

Hingað til hafa ógæfumenn farið undan í flæmingi og falið sig á bak við innra umhverfismat hjá Landsvirkjun. Þeir hafa haldið opinni voninni um, að þannig verði virkjað á Austurlandi, að hálendisverum verði hlíft. Nú er ljóst, að þeir hafa ákveðið að sökkva Eyjabökkum.

Bardaga orðanna er lokið. Þremenningar Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni og fylgismenn þeirra hafa tapað honum. Engar efnahagslegar eða fjárhagslegar forsendur hafa fundizt fyrir óhappaverki Halldórs Ásgrímssonar, Finns Ingólfssonar og Sivjar Friðleifsdóttur.

Rækilega hefur verið upplýst, meðal annars af öðrum þingmanni Framsóknarflokksins í Reykjavík, Ólafi Erni Haraldssyni, að raunverulegt umhverfismat að hætti nýrra laga mun ekki tefja útboð og framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun, ef af henni yrði í kjölfar matsins.

Þremenningarnir ætla að vinna stríðið, þótt þeir hafi tapað bardaga röksemdanna. Þar með hafa þeir gefið þjóðinni færi á að skríða úr öskustónni og ganga undir eldskírnina, sem hún hefur farið á mis við alla sína sjálfstæðisbaráttu. Nú þarf þjóðin að blása í herlúðra.

Andóf tekur við af orðum sem þungamiðja baráttunnar fyrir sjónarmiðum móður náttúru, sögu og framtíðar. Innan ramma lýðræðis rúmast fleira en fjögurra ára seta vandræðafólks í ráðherrastólum. Þar rúmast líka vopnlaust andóf borgara landsins gegn firringunni.

Andófið þarf að rísa úr grasrótinni, í briddsklúbbunum og gönguklúbbunum, í fjölskyldunum og nágrannahópunum, í stéttarfélögunum og stjórnmálafélögunum. Hinn þögli meirihluti, sem hefur talað í skoðanakönnunum, þarf nú að standa á fætur og láta að sér kveða.

Andóf gegn ólánsverkinu getur tekið á sig ótal myndir og þarf að gera það. Innan þess rúmast fjárhagslegar, efnahagslegar og pólitískar refsiaðgerðir og skæruverkföll gegn öllum þeim, sem leggja hönd að fyrirhuguðu verki, jafnt verktökum sem orkukaupanda.

Andófið þarf að flytja út fyrir landsteinana. Sérstaklega verður viðkvæmt fyrir Norsk Hydro, þegar Norðmenn átta sig á, að fyrirtækið er að gera það hér, sem það fær ekki lengur að gera heima fyrir. Norsk Hydro verður dregið til ótakmarkaðrar ábyrgðar.

Andófsmenn hins þögla meirihluta þurfa samt fyrirfram að átta sig á, að allt, sem hér hefur verið nefnt, mun ekki nægja til að stöðva firringuna. Öll þessi atriði skipta máli, en önnur og meiri þarf eldskírnin að verða, sem að lokum stöðvar framgang málsins.

Það verður ekki fyrr en hinn þögli meirihluti flykkist hundruðum saman á Eyjabakkasvæðið til að hafa vaktaskipti framan við ýtutennurnar, að sigur vinnst. Sá er nefnilega munur Eyjabakka og Torgs hins himneska friðar, að íslenzkir ráðamenn láta ekki drepa fólk.

Ekki borgar sig að hefja vegferð án þess að vita um síðasta kafla hennar. Grasrót andófsins þarf að verða meðvituð um, að hún þurfi að lokum að standa andspænis eldskírninni framan við ýtutennurnar. Þegar hún hefur játazt því, mun sigur hennar verða mikill.

Siv Friðleifsdóttir kastaði stríðshanzka ógæfuliðsins framan í þjóðina í fyrradag. Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri eldskírnar til að sanna tilverurétt sinn.

Jónas Kristjánsson

DV