Þótt sjálfsagt hafi verið að greiða götu Irving Oil til eflingar samkeppni í olíu- og benzínsölu á Íslandi, er ekki jafn sjálfsagt að greiða götu nýs smásölufyrirtækis, sem hyggst skipta við eitt af fyrirtækjunum þremur, er hingað til hafa einokað olíu- og benzínverzlun í landinu.
Skeljungur hefur þegar nægar lóðir á Reykjavíkursvæðinu, alveg eins og Olíufélagið og Olíuverzlunin. Ekkert þessara félaga þarf nýjar lóðir næstu árin. Ef hægt er að útvega nýjar lóðir undir benzínstöðvar eiga þær að fara til nýrra félaga utan einokunarhringsins.
Ef Hagkaup og Bónus fá aðstöðu til að selja benzín í samvinnu við þriðjunginn af þríhöfða þursi olíuverzlunarinnar, verður að reyna að tryggja, að það sé ekki dulbúin leið til að fjölga benzínstöðvum þursins með því að hagnýta velvilja í garð neytendavænna kaupmanna.
Slík benzínsala má vera á lóðum, sem hin vinsælu verzlunarfyrirtæki hafa til sinna starfa, en ekki á nýjum lóðum, sem síðan rynnu smám saman til olíufélagsins, er stendur að baki framtakinu. Reykjavíkurborg þarf að gæta þess, að neytendur verði ekki gabbaðir.
Benzínnotendur munu ekki njóta ávaxta af samkeppni fyrr en rofin hafa verið tök hins þríhöfða þurs á benzínmarkaðnum. Áratuga reynsla er fyrir því, að íslenzku olíufélögin hafa rekið sameiginlega og lengst af ríkisverndaða einokun gegn hagsmunum fólksins í landinu.
Við þurfum fleiri en þrjú olíufélög í landinu alveg eins og við höfum fleiri en þrjá fréttamiðla. Við þurfum líka fleiri en tvö stór tryggingafélög og fleiri en þrjá banka. Ekki síður þurfum við fleiri en eitt stórt skipafélag og eitt stórt flugfélag. Við þurfum frelsi frá kolkrabba.
Reynslan sýnir, að innlendir aðilar hafa í flestum tilvikum ekki bolmagn til að ráðast gegn einokunar- og fáokunarfyrirtækjum landsins. Til þess að frjáls verzlun fái að njóta sín hér á landi þurfum við að greiða götu erlendra kaupmanna á borð við Irving Oil feðgana.
Með aðild okkar að fjölþjóðlegum viðskiptasamningum opnast leiðir til að rjúfa heljartök innlendra einokunar- og fáokunarfyrirtækja. Skandia er að reyna að gera það í tryggingum og Irving Oil í benzíni. Við þurfum að laða hingað fleiri slíka aðila og á fleiri sviðum.
Ríkisvaldið hefur löngum rekið velferðarkerfi einokunar- og fáokunarfyrirtækja og reynt að hindra erlenda samkeppni, til dæmis í flugi og flugafgreiðslu. Stærstu stjórnmálaflokkarnir tveir hafa lengst af verið reknir sem þjónustustofnanir kolkrabbans og smokkfisksins.
Reykjavíkurborg og nágrannabyggðir hennar leggja lóð á vogarskál viðskiptafrelsis með því að útvega aðstöðu fyrir nýja samkeppni að utan, óháða áratuga samráðum innlendrar fáokunar. Þetta gera sveitarfélögin með því að bjóða hafnaraðstöðu og verzlunarlóðir.
Hagkaup og Bónus hafa reynzt vera neytendavæn fyrirtæki og eru alls góðs makleg. En þau starfa saman og hafa á sínu sviði markaðshlutdeild, sem er yfir hættumörkum. Hún gæti valdið erfiðleikum, ef skipt yrði um ráðamenn og viðskiptastefnu í fyrirtækjunum.
Af öllum þessum ástæðum er eðlilegt að líta öðrum augum á benzínsmásölu Skeljungs, Hagkaups og Bónusar en á nýja samkeppni af hálfu Irving Oil, sem þarf nýjar lóðir til að geta farið af stað. Skeljungsafkvæmið getur athafnað sig á lóðum málsaðilanna þriggja.
Aðalatriðið er, að Reykjavíkurborg veiti nýjum aðilum nýjar lóðir, en ekki gömlum og grónum aðilum, hvort sem þeir eru undir eigin nafni eða í nýjum dulargervum.
Jónas Kristjánsson
DV