Stuðlað að sykursýki

Greinar

Hollustuvernd ríkisins og Manneldisráð bera hluta ábyrgðar á hraðri útbreiðslu sykursýki hér á landi. Þessar stofnanir, sem hafa breitt úr sér við Ármúlann, hafa ekki orðið við óskum um að fá merkt á umbúðir matvæla, hve mikill viðbættur sykur sé í þeim.

Vörur frá Bandaríkjunum bera yfirleitt slíkar merkingar, en hvorki innlendar vörur né vörur frá Evrópu. Hollustuvernd og Manneldisráð hafa lagt lóð sitt á evrópsku vogarskálina og þannig reynt að koma í veg fyrir, að neytendur sjái, hve mikið matur er sykraður.

Fyrir örfáum áratugum var sykursýki fremur lítið vandamál hér á landi. En nú eru um fimm þúsund Íslendingar komnir með sykursýki. Aukningin stafar meira eða minna af vondu mataræði nútímafólks, þótt að grunni til sé sjúkdómurinn arfgengur.

Hollustuvernd ríkisins og Manneldisráð hafa fylgt þeirri þráhyggju næringarfræðinnar, að kolvetni sé sama og kolvetni og að sykur sé eins og hvert annað nytsamlegt kolvetni, þótt rannsóknir hafi fyrir löngu leitt í ljós, að viðbættur sykur sé varhugaverð fæða.

Vitneskjan um hættuna af viðbættum sykri er útbreiddust í Bandaríkjunum. Því var það fyrsta ríkið, sem skyldaði framleiðendur og seljendur matvæla til að merkja á umbúðir, hve miklum sykri væri bætt út í vöruna ofan á náttúrulegt sykurmagn hennar.

Hollustuvernd ríkisins og Manneldisráð hafa reynt að leggja stein í götu bandarískra matvælamerkinga hér á landi og haft uppi kröfu um, að seljendur slíkrar vöru lími lakari evrópskar merkingar ofan á þær bandarísku til að draga úr upplýsingum til neytenda.

Engum, sem ekur um Ármúlann í Reykjavík, dylst, að Hollustuvernd ríkisins hefur ekki vaxið hægar en útbreiðsla sykursýkinnar. Eitthvað af þeim mannskap ætti að geta litið upp úr úreltum kennslubókum og farið að fylgjast með þróun mála vestan hafs.

Sömuleiðis væri gott, ef eitthvað af þessum mannskap væri aflögu til að kanna, hvort upplýsingar á umbúðum matvæla séu í samræmi við raunveruleikann. Staðreyndin er sú, að óprúttnir geta birt á umbúðum það, sem þeim sýnist, án minnsta ótta við eftirlit.

Hollustuvernd vísar jafnan á heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, sem augljóslega eru engan veginn í stakk búnar til að láta rannsaka efnainnihald grunsamlegra matvæla. Hollustuvernd hefur hins vegar nægan mannskap til að láta til sín taka á þessu sviði.

Skynsamlegt væri fyrir ríkisvaldið að fara framhjá verkkvíðinni Hollustuvernd og fá þriðja aðila til að annast eftirlitið. Til dæmis mætti fela Neytendasamtökunum gegn gjaldi að taka að sér að láta gera rannsóknir á sannleiksgildi umbúðamerkinga.

Kostnað við slíka verktöku mætti fjármagna með því að lækka greiðslur ríkisins til Hollustuverndar, sem er orðin að meiri háttar bákni í ríkiskerfinu, án þess að þess sjái umtalsverðan stað í manneldismálum. Þetta er dæmigert apparat, sem snýst kringum sjálft sig.

Ófært er, að ónýtar stofnanir standi í vegi framfara í heilsufari þjóðarinnar. Ríkisvaldinu ber að taka af skarið og efna á annan hátt til þjónustu, sem auðveldar fólki að átta sig á innihaldi matvæla og auðveldar því að treysta upplýsingum um þetta innihald.

Umbúðamálið er tvíþætt, annars vegar eru sykurmerkingar matvæla ófullnægjandi og hins vegar eru merkingar matvæla falsaðar í sumum tilvikum.

Jónas Kristjánsson

DV