Stuðlað að þjóðahreinsun

Greinar

Fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Rússlandi sagði nýlega á fundi, að Eistlendingar skyldu flýja yfir til Svíþjóðar áður en það yrði of seint, því að annars yrðu þeir fluttir nauðugir til Síberíu. Þetta var Vladimir Zhirinovskíj, sem nýtur töluverðs fylgis í Rússlandi.

Boris Jeltsín var á hátindi vinsældanna, þegar hann vann Zhirinovskíj í forsetakosningum. Nú gengur allt á afturfótunum hjá Jeltsín, þannig að ekki er unnt að treysta því, að í næstu forsetakosningum vinni hann sigur á fulltrúa þjóðernissinnaðra öfgamanna.

Annar þekktur og áhrifamikill stjórnmálamaður í hópi rússneskra þjóðernissinna er Viktor Alksnis. Hann sagði nýlega í útvarpi til rússneskumælandi fólks í Eystrasaltslöndunum, að Rússland mundi brátt geta innlimað þau. Hann fylgist vel með árangri Serba.

Öfgamenn í Rússlandi eru hrifnir af þjóðahreinsunarstefnu Serba. Þeir sjá, að Serbar komast upp með að taka landsvæði, þar sem þeir eru í miklum minnihluta, og reka íbúana á brott með ógeðslegum ofbeldisverkum. Þetta vilja þeir líka gera á valdasvæði Rússlands.

Opinberlega hafa þeir hótað íbúum Eystrasaltsríkjanna, að þeim verði smalað til Síberíu, ef þeir hafi sig ekki á brott til Svíþjóðar. Sama þjóðahreinsunarstefna kemur fram gegn Moldóvum við landamæri Rúmeníu og gegn mörgum tugum minnihlutahópa í landinu.

Fleiri eru þeir, sem fylgjast með þjóðahreinsun Serba í Króatíu og Bosníu. Í Kákasusfjöllum berjast Armenar og Azerar og reka almenning á brott til skiptis. Nýstofnað Slóvakíuríki mun senn fara að beita ofbeldi gegn ungverskum minnihluta við landamæri ríkjanna.

Ekki þarf að leita svona langt frá Serbum til að finna árangurinn af útþenslustefnu þeirra. Þeir eru í miklum minnihluta í Kosovo, en eru farnir að beita þjóðahreinsun gegn albanska meirihlutanum. Sami hryllingur er á byrjunarstigi gegn Ungverjum í Vojvodina.

Allt byggist þetta á, að þjóðernissinnaðir hryðjuverkamenn sjá, að Vesturlönd láta þetta kyrrt liggja, en senda hjálparstofnanir til að taka ábyrgð á fólkinu, sem hrakið er á brott. Haldnir eru fáránlegir friðarfundir út og suður, en ekkert raunhæft gert í málinu.

Slobodan Milosevic ætlar að komast upp með það í Kosovo og Voyvodina, sem hann hefur komizt upp með í Króatíu og Bosníu. Hið sama ætlar hinn rússneski Zhirinovskíj að gera í Eystrasaltsríkjunum og Moldóvíu, er hann kemst til valda í næstu forsetakosningum.

Forsenda alls þessa er japl og jaml og fuður þeirra, sem ráða ríkjum á Vesturlöndum, einkum helztu ráðamanna Evrópusamfélagsins og Bandaríkjanna. Þetta eru lúðar, sem hvorki sjá siðleysið né óhagkvæmnina í að leyfa Serbum að halda uppteknum hætti í Bosníu.

Herveldi Vesturlanda eiga að lýsa algeru siglinga- og flugbanni á Serbíu og Svartfjallaland, banna flug hervéla Serba, eyða flugvöllum þeirra og öðrum hernaðarlega mikilvægum stöðum. Þau eiga að hervæða Bosníumenn gegn Serbum. Þetta er augljós skylda þeirra.

Miklum árangri má ná án þess að taka þátt í skæruhernaði á landi. Með ofangreindum hernaðaraðgerðum Vesturlanda er um leið sagt við Slobodan Milosevic og Vladimir Zhirinovskíj og alla aðra, sem áhuga hafa á að hefja þjóðahreinsun, að það dæmi gangi ekki upp.

Hingað til hefur fát og fálm ráðamanna Vesturlanda þvert á móti stuðlað að því að efla þann ásetning Serba að beita þjóðahreinsun hvarvetna við landamæri sín.

Jónas Kristjánsson

DV