Stundarléttir.

Greinar

Sem betur fer hefur Ernest Lefever dregið sig í hlé sem ráðherraefni mannréttindamála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Uppgjöfin hyggðist á spá um, að skipun hans yrði naumlega felld í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Skömmu áður hafði utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar samþykkt með yfirgnæfandi 13-4 meirihluta að mæla gegn skipun Lefevers, þrátt fyrir eindreginn og ítrekaðan þrýsting Reagans forseta, sem endilega vildi Lefever.

Ráðherraefnið var hættulegt dæmi úr hópum ofsatrúarmanna, sem Reagan er alltof mikið tengdur. Það var lán, að reyndir repúblikanar á þingi sáu, að skipun Lefevers hefði skaðað samskipti Bandaríkjanna við lýðræðisríki.

Lefever er þekktur fyrir andstöðu gegn því, að Bandaríkin setji markmið í mannréttindum í samskiptum við útlönd. Í raun þýðir þessi afstaða, að Bandaríkin skuli taka upp vinsamlegri samskipti við glæpastjórnir í útlöndum.

Lefever vildi gera greinarmun á alræðisríkjum kommúnismans og vinveittum einræðisríkjum, sem væru með í baráttunni gegn kommúnismanum og væri auk þess hægt með lagi að þoka í átt til aukinna mannréttinda heima fyrir.

Sá sannleikskjarni er í skoðunum Lefevers, að Sovétríkin hafa það umfram önnur glæpastjórnarríki að stefna að heimsyfirráðum. Þess vegna hlýtur verulegur þáttur utanríkismála vestrænna ríkja að felast í andstöðu við þá stefnu.

Hins vegar verður að játa, að stjórnir margra andkommúniskra ríkja eru miklu villimannlegri en stjórn Sovétríkjanna. Fjöldamorð eru nokkurn veginn aflögð heima fyrir þar eystra og pyndingar aðeins stundaðar í smáum stíl, miðað við aðra staði.

Argentína er alræmt dæmi um takmarkalausa villimennsku í stjórnarfari. Grimmdin og ógeðið þar er svo gífurlegt, að því verður ekki lýst á prenti. Þúsundir manna eru hreinlega týndar, af því að leifum þeirra hefur verið kastað í úthafið.

Glæpalýður Rómönsku Ameríku hefur löngum skákað í skjóli Bandaríkjanna. Honum hefur nægt að segjast vera að berjast við kommúnista. Carter var fyrsti forseti Bandaríkjanna, sem lét ekki segja sér slíka vitleysu.

Rómanska Ameríka er hroðalegur staður, þar sem grimm og gráðug auðstétt þrælkar alþýðuna og kúgar sem mest hún má. Borgarastríðið í Nicaragua var sönn uppreisn alþýðunnar og sama er að segja um núverandi átök í Salvador.

Fagnaðarkliður fór um illmennahópa Rómönsku Ameríku, þegar Reagan náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna. Síðan þá hefur kúgun hvarvetna aukizt í þessum bakgarði Bandaríkjanna. Kjarkur morðingja og pyndingastjóra hefur aukizt.

Skipun Lefevers hefði orðið punkturinn yfir i-ið. Ef hann hefði orðið ráðherra mannréttinda í Bandaríkjunum, hefðu mannréttindasinnar heimsins hreinlega orðið að hafna forustu Bandaríkjanna fyrir hinum siðmenntaða heimi.

Því miður er málið ekki leyst, þótt einn hættulegur maður verði af embætti. Reagan Bandaríkjaforseti er sem fyrr lokaður fyrir því, hvað er í rauninni hornsteinn Vesturlanda, stolt Vesturlanda, – mannréttindi.

Reagan er orðinn svo samgróinn kúrekahlutverkinu, að hans fyrsta utanríkisverk var að gefa einum fantinum, forseta Mexíkó, riffil að gjöf. En karlmennska kúrekamyndanna er því miður skammt frá “machismo” hinnar Rómönsku Ameríku.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið