Stundin er runnin upp

Greinar

Friðardúfur og nytsamir sakleysingjar á Vesturlöndum hafa stuðlað að sannfæringu Saddams Hussein Íraksforseta um, að hann komist upp með að innlima Kúvæt. Hann heldur, að Vesturlandabúar séu svo aðframkomnir friðarsinnar, að þeir þoli ekki að sjá stríð.

Á svipaðan hátt töfðu friðardúfur og nytsamir sakleysingjar endalok kalda stríðsins um heilan áratug eða svo. Þótt Sovétríkin hafi fyrir löngu verið komin efnahagslega að fótum fram, héldu ráðamenn þeirra, að þeir gætu splundrað varnarsamvinnu Vesturlanda.

Munurinn á Gorbatsjov og Brezhnev er ekki, að Gorbatsjov sé betri maður. Hann er hins vegar yngri í valdastóli en Brezhnev var og einkum þó greindari. Hann sá, að vestrænum ríkjum varð ekki þokað og að friðardúfur og nytsamir sakleysingjar voru áhrifalítill hópur.

Þess vegna gafst Gorbatsjov upp á að þvinga Vestur– Evrópu til eftirgjafa á borð við yfirlýsingu Norðurlanda um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Þess vegna gafst hann upp á að fjármagna leppa sína í Austur-Evrópu. En hann þykist mega halda Eystrasaltsríkjunum.

Gorbatsjov veit, að vestrænum löndum tekst ekki að ná samstöðu í Sameinuðu þjóðunum gegn ofbeldi hans í Lithaugalandi. Og sjálfur hefur fulltrúi hans neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, rétt eins og fulltrúi Dengs hins kínverska hefur þar.

Gorbatsjov og Deng eiga það sameiginlegt að treysta sér til að láta skriðdreka sína brölta yfir fólk, sem þeir telja vera þegna sína. Í Sameinuðu þjóðunum er engin samstaða um að mæta einræðisherrum af því tagi á velli, sem þeir telja vera sinn eigin heimavöll.

Saddam Hussein er að því leyti verri og hættulegri, að hann treystir sér til að innlima nágrannaríki. Það er meira en forverar Gorbatsjovs gerðu, þegar þeir réðust inn í Pólland, Tékkóslóvakíu og Ungverjaland, því að þeir afhentu völdin í hendur innlendra leppa.

Vesturlönd hafi hvorki hernaðarmátt né áhrifamátt á alþjóðavettvangi til að velta Gorbatsjov og Deng. Þau hafa heldur ekki aðstöðu til að velta minni háttar einræðisherrum, sem halda sig að mestu innan landamæranna, svo sem Gaddafi í Líbýu og Assad í Sýrlandi.

Bandaríkjunum hefur hins vegar tekizt að slá skjaldborg um tilverurétt Kúvæts sem aðildarríkis Sameinuðu þjóðanna. Misjafn sauður er í því bandalagi, þar á meðal Assad Sýrlandsforseti. Þátttaka hans er óhjákvæmileg afleiðing af alþjóðlegu eðli stríðsins við Persaflóa.

Stríðið þar hefur nú staðið í fimm mánuði og loksins er komið að gagnsókn liðs ríkja Sameinuðu þjóðanna, undir forustu Bandaríkjanna. Miklu máli skiptir, að af gagnsókninni verði í þessari umferð, því að Saddam Hussein og hans menn verða ella hálfu illskeyttari.

Nú getur Saddam Hussein ekki gert mikinn usla á Vesturlöndum og hann getur tæpast ráðizt á Ísrael, nema fara fyrst inn í Jórdaníu. Þetta takmarkar átakasvæðið verulega. Eftir fimm ár getur hann hins vegar dreift stríðinu víðar, ef hann verður ekki stöðvaður nú.

Friðardúfur og nytsamir sakleysingjar á Vesturlöndum hafa valdið skaða með því að koma inn hjá Saddam Hussein, að bandamenn hafi ekki innri mátt til að hefja gagnsókn. Hið sama hafa gert afdankaðir stjórnmálamenn, sem hafa verið í pílagrímsferðum til Bagdad.

Sem betur fer bendir allt til þess, að friðardúfur og nytsamir sakleysingjar geti ekki stöðvað réttmæta og tímabæra gagnsókn bandamanna við Persaflóa.

Jónas Kristjánsson

DV