Stutt skref í rétta átt.

Greinar

Flest bendir til, að stjórnmálamaðurinn og alþingismaðurinn Lárus Jónsson fái ekki hina lausu stöðu bankastjóra við Búnaðarbankann. Þrír af fimm bankaráðsmönnum hafa lýst stuðningi við bankamanninn Jón Adolf Guðjónsson.

Að vísu er hugsanlegt, að forustu Sjálfstæðisflokksins takist að snúa upp á handlegg einhvers hinna þriggja bankaráðsmanna, sem allir eru í öðrum stjórnmálaflokkum. En sinnaskipti af því tagi verða að teljast ótrúleg.

Ef Lárus nær ekki stöðunni, er það í annað sinn á skömmum tíma, að stjórnmálamaður og alþingismaður verður að víkja fyrir bankamanni. Þá átti Framsóknarflokkurinn í hlut og bankinn var hinn sami og nú, Búnaðarbankinn.

Það var stjórnmálamaðurinn og alþingismaðurinn Stefán Valgeirsson, sem fyrir áramót beið lægri hlut í samkeppni við bankamanninn Stefán Pálsson um stöðu bankastjóra. Þau úrslit mörkuðu tímamót í samdrætti pólitískrar spillingar.

Sem betur fer þykir ekki lengur sjálfsagt, að þreyttir alþingismenn hafi forgang að stöðum bankastjóra. Þetta er í sama dúr og í utanríkisþjónustunni, þar sem ekki þykir lengur sjálfsagt, að þreyttir ráðherrar verði að sendiherrum.

Að vísu er enn litið svo á, að embætti bankastjóra séu eign stjórnmálaflokka í hefðbundnum hlutföllum. Stefán Pálsson var ráðinn sem framsóknarmaður og Jón Adolf Guðjónsson verður ráðinn sem sjálfstæðismaður.

Það, sem gerist, er, að fulltrúar hinna stjórnmálaflokkanna, sem ekki “eiga” hina lausu stöðu, koma sér saman um að ákveða sjálfir, hver skuli vera fulltrúi eignarflokksins. Og þeir taka fagmenn fram yfir þingmenn.

Þetta er minnkun spillingar, en ekki afnám hennar. Enn er næstum útilokað fyrir bankamenn að verða að bankastjóraefnum, nema með stuðningi valdamikils stjórnmálaflokks, helzt annaðhvort Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks.

Þá eru einnig mjög fá dæmi um, að menn, sem hafa getið sér gott orð í starfi úti í þjóðlífinu, annars staðar en á Alþingi, komi til greina, þegar bankaráð velja nýja bankastjóra. Væri slík tilfærsla þó mjög heilbrigð.

Og ekki má gleyma því, að stjórnmálamenn helztu flokka á alþingi telja sig hafa forgang að kosningu í bankaráð. Það eru enn alþingismenn, sem persónulega ákveða, hverjir verði bankastjórar og helztu deildarstjórar banka.

Eðlilegra væri, að flokkarnir á Alþingi kveddu til starfa í bankaráðum sérfróða flokksmenn utan úr bæ. Þá yrði líklegt, að fagmenn yrðu jafnan ráðnir í mikilvæg embætti, annaðhvort úr röðum bankamanna eða utan úr bæ.

Bezt væri, að niður legðist hugmyndin um, að stjórnmálaflokkar eigi ákveðin sæti í bankaráðum og bankastjórnum, svo og hliðstæð sæti í Framkvæmdastofnun og ýmsum sjóðum, sem skammta fé eins og bankarnir gera.

Alþingismenn hafa nægilegt vald í löggjöfinni og með afskiptum sínum af framkvæmdavaldinu, sem felast í þingræðinu. Þeir eiga ekki að vera að vasast á öðrum valdasviðum til viðbótar, svo sem í fjármálum og fjölmiðlum.

Ráðning tveggja fagmanna sem bankastjóra Búnaðarbankans er skref, en stutt skref, í rétta átt. Verulegum árangri verður ekki náð, fyrr en bankastjóraefni hætta að þurfa að veifa stuðningi við valdamikinn stjórnmálaflokk.

Jónas Kristjánsson.

DV