Styðjum sauðfjárbændur

Greinar

Þjóðfélagið þarf að koma sauðfjárbændum til aðstoðar um þessar mundir. Þeir hafa sætt stórfelldri tekjurýrnun, sem stafar einkum af markaðshruni. Neytendur eru að verða fráhverfir lambakjöti, sem þykir of dýrt, þótt ríkið niðurgreiði umtalsverðan hluta verðsins.

Venjulega hefur ríkið ekki afskipti af gjaldþrotum í öðrum greinum, þótt þau komi í bylgjum. Ríkið leggur til dæmis ekki neitt af mörkum til að milda gjaldþrot tuga verktaka í byggingariðnaði. Eru þó þar í hópi margir undirverktakar, sem hafa hrunið með hinum stóru.

Munurinn á undirverktökum í byggingariðnaði og sauðfjárbændum felst fyrst og fremst í, að hinir fyrrnefndu hafa vitandi vits tekið áhættu í grein, þar sem vitað er, að skammt er milli gróða og taps. Sauðfjárbændur eru hins vegar flestir fæddir inn í hlutskipti sitt.

Í raun hafa sauðfjárbændur áratugum saman verið eins konar opinberir starfsmenn. Til skamms tíma voru kjör þeirra reiknuð út frá kjörum viðmiðunarstétta á mölinni og greidd sem slík, einkum í formi niðurgreiðslna og uppbóta. Það kerfi brást með markaðinum.

Þegar þetta tvennt kemur saman, að sauðfjárbændur hafa ekki valið hlutskipti sitt, heldur erft það, og að þeir hafa lengi getað gengið að vísum tekjum, þá er ekki hægt að láta köld markaðslögmál ein um að ráða örlögum þeirra. Samfélagið ber hluta ábyrgðarinnar.

Sauðfjárbændur verða þó sakaðir um að hafa ekki tekið mark á þeim, sem bentu á, að ríkisrekstur sauðfjárræktar gæti ekki staðizt til lengdar vegna mikils og vaxandi kostnaðar. Þeir verða sakaðir um að hafa trúað hinum, sem hafa sagt gagnrýnendur vera óvini bænda.

Mest er ábyrgð forustumanna bænda. Þeir hafa áratugum saman hafnað allri gagnrýni. Nú verða þeir að standa sjálfir fyrir þeirri fækkun bænda, sem nauðsynleg var fyrir löngu. Hún er núna miklu þungbærari en var, þegar nóg framboð var af atvinnu og tækifærum.

Áratugir eru síðan farið var að benda á, að í stöðunni væri ódýrast fyrir ríkið að kaupa jarðir af bændum og styðja þá til að koma sér fyrir í öðrum atvinnugreinum. Þetta var þá hægt að fjármagna af peningum, sem þá fóru í að hvetja til offramleiðslu á óþörfu kjöti.

Nú er minna fé aflögu til að framkvæma það, sem svonefndir óvinir bænda lögðu til fyrir mörgum áratugum og æ síðan. Svigrúm ríkisins til aðgerða er minna en verið hefur alla þessa áratugi. Eigi að síður verður ríkið að grípa til neyðaraðstoðar við sauðfjárrækt.

Ekki bætir úr skák, að sauðfjárbændur eru orðnir fangar ímyndunarfræðinga, sem telja þeim trú um, að miklir möguleikar séu í útflutningi lambakjöts til Bandaríkjanna. Til stuðnings blekkingunni er gripið til tízkuorða á borð við lífræna og vistvæna framleiðslu.

Það mun hefna sín að reyna að koma af stað útflutningi á framleiðslu, sem ekki stenzt fullyrðingar. Framleiðsla íslenzks lambakjöts getur ekki talizt lífræn ræktun í skilningi bandarískra krafna. Bakslagið getur orðið bændum dýrt, þegar upp kemst um strákinn Tuma.

Athyglisvert er, að aldrei er minnst á skilaverð til bænda, þegar fleygt er fram nýjum og nýjum töfralausnum. Alltaf eru fundnir nýir og nýir galdramenn, sem ætla að selja offramleiðsluna á grundvelli ímyndunarfræða, en aldrei fæst neinn peningur úr óskhyggjunni.

Slíkir draumar valda skaða með því að tefja fyrir, að sauðfjárbændur, forustumenn þeirra og ríkisvaldið opni augun fyrir staðreyndum markaðshruns á lambakjöti.

Jónas Kristjánsson

DV