Stýfum kvótann strax

Greinar

Við ættum að vera að nota svigrúm þorskveiðanna í norðurhöfum til að minnka þorskkvótann við Ísland að sama marki. Við fáum að minnsta kosti 40 þúsund tonn í norðurhöfum og ættum því að geta sigið úr 155 þúsundum tonna í 115 þúsund tonna þorskafla á heimamiðum.

Við erum enn að veiða þorsk í fiskveiðilögsögu okkar langt umfram tillögur fiskifræðinga. Svo hefur verið árum saman. Að meðaltali höfum við farið 62 þúsund tonn á ári fram úr tillögunum. Frá 1987 til 1994 höfum við samtals veitt 430 þúsund tonn umfram tillögurnar.

Ár eftir ár höfum við teflt á tæpasta vað í þorskveiðum okkar. Afleiðingin er, að ekkert klak hefur heppnazt í tíu ár. Seiðatalning á þessu hausti sýnir enn einn magran árgang. Það kemur ekki á óvart, því að önnur vegsummerki sýna, að þorskstofninn er að hruni kominn.

Of lítill hrygningarstofn er sennilegasta skýringin á, að góð klakár eru hætt að koma. Og hrygningarstofninn hefur árum saman verið óvenjulega lítill og farið minnkandi með hverju ári. Að baki þessarar ógæfu er sennilega ekkert annað en langvinn ofveiði okkar á þorski.

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra hefur reynt að ná stuðningi ríkisstjórnarinnar við minni þorskkvóta, en ekki tekizt. Eftir seiðatalningu þessa hausts hefur hann ítrekað þetta og sagzt harma, að ekki hafi náðst pólitísk samstaða um að fara að tillögum fiskifræðinga.

Nú ber ráðherranum að herða aftur upp hugann og leggja til við ríkisstjórnina, að kvóti nýbyrjaðs fiskveiðiárs verði minnkaður frá því, sem áður hafði verið boðað. Það er ekki nóg að bíða í heilt ár eftir tillögum um minni þorskveiði en nú er heimiluð samkvæmt kvóta.

Ef ríkisstjórnin hafnar slíkum tillögum sjávarútvegsráðherra, hefur hún tekið þunga ábyrgðarinnar af herðum hans og flutt yfir á sínar. Meðan svo er ekki, hvílir ábyrgðin þyngst á honum. Og það er þung ábyrgð að sitja aðgerðalaust yfir hruni íslenzka þorskstofnsins.

Því miður hafa skammtímasjónarmið eflzt í stjórnmálum landsins. Ráðamenn flokkanna eru flestir ófúsir að horfa til langs tíma. Þeir líta í bezta lagi til næstu kosninga og í sumum tilvikum aðeins til næstu pólitísku slagsmála. Þeir eru burtreiðamenn, en engir stjórnvitringar.

Þetta er þjóðinni sjálfri að kenna. Hún hefur hallað sér í auknum mæli að kjaftforum kraftaverkamönnum, þar sem hver kynslóð froðusnakka er spilltari en hin næsta á undan. Hún virðist orðin ófær um að greina kjarnann frá hisminu í vali sínu á stjórnmálamönnum.

Þegar þjóð, sem er ófær um að vera sjálfstæð, velur sér stjórnmálamenn, sem eru ófærir um að varðveita fjöregg hennar, er ein af niðurstöðunum sú, að þorskstofninn hrynur. Og ekki virðist vera pólitískur vilji til að horfast í augu við raunveruleikann á þessu sviði.

Merkilegt er, að engum stjórnmálamanni virðist detta í hug, að virðing hans yxi og staða hans efldist, ef hann horfðist í augu við alþjóð og segði: Því miður höfum við gengið of langt í þorskveiðum og verðum að kúvenda, þótt það kosti háa og lága miklar fórnir um tíma.

Þetta er einmitt það, sem ístöðulitla þjóð vantar um þessar mundir. Hún þarf landsfeður, sem geta leitt hana af villigötu ofveiðinnar á þorski. Hana skortir langtíma- leiðtoga, sem hafa kjark til að stýfa þorskkvótann strax úr 155 þúsund tonnum niður í 115 þúsund tonn á ári.

Við höfum einmitt tækifæri nú, því að veiðin í norðurhöfum gefur okkur að minnsta kosti 40 þúsund tonna þorskafla, sem bætist ofan á aflann af heimamiðum.

Jónas Kristjánsson

DV