Stytting vinnutíma

Greinar

Hluti launa af landsframleiðslu er hinn sami hér og í Danmörku, 63%, og örlitlu hærri en gengur og gerist á Vesturlöndum, þar sem hann er að meðaltali 61%. Athyglisvert er, að sneið launagreiðslna af þjóðarkökunni skuli vera svipuð í þessum margvíslegu löndum.

Annaðhvort hafa samtök launamanna sýnt sama árangur með mismunandi aðferðum í mismunandi löndum eða þá, að hlutdeildin er líkari náttúrulögmáli, sem helzt óbreytt, þótt hagsmunaaðilar togist á um hana. Sennilega eiga báðar skýringarnar þátt í 61-63% niðurstöðunni.

Hlutfallstölurnar nást sums staðar með háum krónutölum eða jafngildi þeirra í öðrum myntum, samfara meiri verðbólgu, og annars staðar með lágum krónutölum, samfara minni verðbólgu. Sums staðar nást þær með vinnufriði og annars staðar með verkföllum.

Sums staðar nást hlutfallstölurnar með heildarsamningum, sem ná meira eða minna til alls þjóðfélagsins eða umtalsverðra geira þess. Annars staðar nást þær með samningum fámennra hópa, sem geta verið ólíkir innbyrðis, annaðhvort fagfélög eða vinnustaðafélög.

Í allmörg ár hefur hér á landi ríkt skilningur á, að einhvers konar þak sé á þessari hlutdeild og að hákrónusamningar fyrri áratuga hafi ekki gefið neitt í aðra hönd. Þessi skilningur hefur leitt til þess, að leitað hefur verið annarra leiða til að bæta lífskjör launafólks.

Ein aðferðin felst í þjóðarsáttum aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, þar sem síðastnefndi aðilinn leggur fram svonefndan félagsmálapakka, sem ætlað er að auka velferð fólksins og þar með bæta lífskjör þess, án þess að það komi fram í sjálfum launagreiðslunum.

Önnur aðferð felst í að reyna að hækka meira laun þeirra, sem minna mega sín, en hinna, sem betur mega sín. Þetta hefur ekki tekizt sem skyldi, því að hálaunahóparnir hafa lag á að fara í kringum þessar tilraunir. Mismunur hálauna og láglauna hefur ekki minnkað.

Ekkert bendir til, að mismunur hálauna og láglauna sé annar hér en á Vesturlöndum almennt eða í Danmörku sérstaklega. En fróðlegt væri að fá eins greinargóða skýrslu um það efni og við höfum nýlega fengið frá Þjóðhagsstofnun um lífskjör á Íslandi og í Danmörku.

Sú skýrsla bendir til þess, að samtök launafólks eigi að mestu ónotaða eina aðferð við að bæta lífskjörin án þess að ögra náttúrulögmálinu um 61-63% hlutdeild launa í landsframleiðslu. Það er aðferð, sem drepið hefur verið á í sumum kjaraviðræðum á allra síðustu árum.

Aðferðin byggist á kenningunni um, að summa daglegrar vinnu sé hin sama, hvort sem hún sé unnin í dagvinnu eða með yfirvinnu að auki. Reynslan af ýmsum yfirvinnubönnum hefur bent til þess, að svo sé. Spurningin er, hvort unnt sé að afnema yfirvinnu að mestu.

Atvinnurekendur eru að sjálfsögðu hræddir við að semja um, að yfirvinna færist inn í tímakaup, af því að þeir sjá ekki í hendi, hvernig framleiðni vinnustundarinnar muni aukast að sama skapi, þótt nefnd séu einstök dæmi um, að sú hafi einmitt orðið raunin.

Lykillinn að styttingu vinnutíma að óbreyttu heildarkaupi felst einmitt í, að báðir aðilar vinnumarkaðarins fái sama hlut og áður, en vinnutíminn hafi bara stytzt og að í því felist lífskjarabati, sem ekki reynir að raska náttúrulögmálinu um 61-63% hlutdeild launa í kökunni.

Ekki er auðvelt að finna leiðir til að skapa trúnað málsaðila í kjarasamningum á gildi þessarar leiðar. Það gæti verið spennandi viðfangsefni á næstu árum.

Jónas Kristjánsson

DV