Varnir gegn tjóni af völdum Suðurlandsskjálfta eru öflugri en almennt hefur verið talið. Hönnuðir mikilvægustu mannvirkja hafa í auknum mæli haft hliðsjón af hættunni. Frekari aðgerða verður þó þörf, þegar búið er að gera heildarúttekt á stöðu mannvirkjanna.
Engin varnarkeðja er öflugri en veikasti hlekkurinn. Ein brú á viðkvæmum stað ræður því, hvort samgöngur rofna eða ekki. Ef Þjórsárbrúin á hringveginum verður ófær, er ekki um neina aðra kosti að ræða en brú undir Heklurótum í nágrenni Búrfellsvirkjunar.
Staðan er svipuð á vatnasvæði Rangár, en betri á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár, þar sem eru margar brýr. Gott er að dreifa brúm, því að jarðskjálfti er yfirleitt aðeins harður á þröngu svæði. Þótt hann geri hvassa atlögu að einni brú, getur sloppið önnur brú á sömu á.
Vegagerðin hefur lengi haft Suðurlandsskjálfta í huga við hönnum mannvirkja, en síður við dreifingu þeirra. Þjórsárbrú og Ölfusárbrú við Selfoss hafa verið mældar og styrktar. Þjórsárbrú hvílir nú á jarðskjálftalegum úr gúmi og blýi, sem hafa sömu áhrif og höggdeyfar bíla.
Þótt Þjórsárbrú sé búin undir Suðurlandsskjálfta, væri samgöngukeðjan traustari, ef reist væri önnur Þjórsárbrú í byggð. Sama er að segja um Rangá. Að hafa aðeins eina samgönguæð þvert um Suðurland er eins óvarlegt og að hafa aðeins eina raflínu um svæðið.
Orkuframleiðslan og orkuflutningurinn á að vera nokkru traustari en vegakerfið. Virkjanasvæðin eru tvö, vestast á svæðinu og austast, við Sog og Þjórsá-Tungnaá. Línurnar frá austara svæðinu eru tvær, þar af önnur ofan byggða. Ólíklegt er, að þetta bresti allt í einu.
Án efa er hagkvæmast að flytja slasað fólk sem mest til höfuðborgarsvæðisins, þar sem slysadeildir eru öflugastar að tækni og mannskap. Þyrlur eru til og eru án efa skjótvirkasta og öruggasta leiðin til að koma fólki þangað, hvernig sem ástand brúa er á skjálftasvæðinu.
Hins vegar þarf að meta, hvernig staðan verður, ef varnarliðið hverfur af Keflavíkurvelli, til dæmis vegna sparnaðarsjónarmiða í Bandaríkjunum, sem eru utan áhrifasviðs okkar. Ákveða þarf með góðum fyrirvara, hvernig við bregðumst við brottflutningi á þyrlum.
Einna traustast er ástandið sennilega í venjulegum húsum á svæðinu, íbúðarhúsum og vinnustöðum fólks. Lengi hafa verið í gildi reglur um sérstaklega mikinn styrkleika húsa á svæðinu. Flest hafa þau verið reist á síðari árum og á grundvelli þessara reglna.
Lögð hefur verið fram skýrsla um aðgerðir til að draga úr hættum af völdum Suðurlandsskjálfta, unnin af Veðurstofu, Orkustofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Raunvísindastofnun og verkfræðideild Háskóla Íslands. Þar er hvatt til samræmingar málsaðila.
Að tillögu skýrsluhöfunda verður væntanlega skipuð nefnd um jarðskjálftavá. Verkefni hennar verður að samræma frekari rannsóknir á jarðskjálftahættu og að samræma mat á veikustu hlekkjum varnarkeðjunnar, svo að styrkja megi þá hlekki sérstaklega.
Spárnar segja, að 90% líkur séu á öflugum Suðurlandsskjálfta á næstu tveimur áratugum. Samkvæmt skýrslunni erum við tiltölulega vel undir skjálftann búin, en þurfum að samræma varnaraðgerðir, svo og að treysta keðjuna með nýjum eða endurbættum hlekkjum.
Stöðumat og tillögur skýrslunnar eru mikilvægt skref í þá átt að reyna að læra að umgangast náttúruöflin í landinu af fullri virðingu og hafa á þeim hemil.
Jónas Kristjánsson
DV