Sukkflokkar endurkosnir

Greinar

Í lögþingskosningunum á fimmtudaginn studdu Færeyingar gömlu stjórnmálaflokkana, sem hafa komið þeim á kaldan klaka. Flokkarnir, sem ráðið hafa ferðinni undanfarna áratugi, Sambandsflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn og Fólkaflokkurinn, fengu 19 þingmenn af 27.

Mestan stuðning hlaut Sambandsflokkurinn, sem hefur ráðið mestu um þá hefðbundnu stefnu færeyskra stjórnvalda að mjólka danska ríkissjóðinn sem allra mest, í stað þess að færa fjárhagslega ábyrgð af tilveru Færeyinga sem þjóðar yfir á herðar Færeyinga sjálfra.

Fremst þar í flokki hefur verið aðalblað Færeyja, Dimmalætting, sem áratugum saman hefur varað Færeyinga við íslenzku leiðinni og flutt rækilegar fréttir af verðbólgu á Íslandi og öðru því, sem þar væri að fara fjandans til, einmitt vegna íslenzka sjálfstæðisbröltsins.

Sníkjustefnan gagnvart Dönum, sem Sambandsflokkurinn og Dimmalætting stóðu fyrir, fór saman við smábyggðastefnuna, sem Jafnaðarmannaflokkurinn stóð fyrir. Úr þessu varð mikið peningaflæði og skuldaskrímsli, sem hefur komið Færeyjum í dúndrandi gjaldþrot.

Danskir stjórnmálamenn bera líka töluverða ábyrgð á hruni Færeyja. Það varð að hefð í dönskum stjórnmálum, að færeyskir þingmenn á þingi Dana studdu ríkisstjórnir með tæpan eða engan meirihluta gegn því að fá síaukna styrki og fyrirgreiðslur til Færeyja.

Smám saman glötuðu færeyskir ráðamenn tilfinningunni fyrir verðmætum. Fræg eru götin, sem þeir létu bora hér og þar í fjöll til að efla samgöngur. Nógir peningar fengust frá Dönum til allra hluta og ekkert þurfti að standa undir sér, ekki einu sinni sjávarútvegurinn.

Færeyingar voru lengi svo verndaðir gegn raunveruleikanum, að þeir töldu sig ekki þurfa neitt takmörkunarkerfi á fiskveiðar á borð við íslenzka kvótakerfið. Þeir veiddu sinn fisk í þrot og uppskera nú aflabrest, sem er margfalt alvarlegri en íslenzki þorskbresturinn.

Hagsmunaðilar í sjávarútvegi, sægreifar og verkalýðsrekendur sjómanna, tóku höndum saman við færeysk stjórnvöld og fjölmiðlana um að búa til viðamikið styrkjakerfi, sem endaði með því árið 1988, að önnur hver króna af tekjum sjávarútvegs fékkst frá hinu opinbera.

Aðferðir færeyskra stjórnmálamanna minntu nokkuð á aðferðir íslenzkra stjórnmálamanna á svipuðum tíma, einkum hjá ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem setti upp milljarðasjóði að færeyskum hætti til að tryggja atvinnu út og suður og forða fyrirtækjum frá gjaldþroti.

Munur Íslands og Færeyja fólst í stærðargráðu sjóðasukksins, sem var margfalt meira í Færeyjum, og einnig í viðtakanda reikningsins. Íslendingar sendu afkomendum sínum reikninginn, sem verður greiddur; en Færeyingar sendu hann Dönum, sem vilja ekki greiða hann.

Ef Færeyingar hefðu verið sjálfstæðir eins og Íslendingar, hefði ekki verið hægt að rækta eins gegndarlaust ábyrgðarleysi og þeir gerðu í skjóli velvildar danskra ráðherra til hægri og vinstri, sem héngu í stólunum fyrir atkvæði færeyskra þingmanna á danska þinginu.

Niðurstaða kosninganna í Færeyjum sýnir, að kjósendur þar í landi eru ekki reiðubúnir til að taka afleiðingunum af fortíðinni, heldur kjósa þeir að reyna að láta Dani halda áfram að borga brúsann, enda þótt gjafmildi herraþjóðarinnar hafi brugðizt síðasta rúma árið.

Í kosningunum endurkusu Færeyingar gömlu stjórnmálaflokkana, sem mótuðu þá þróun efnahags- og fjármála, svo og lífsviðhorfa, sem urðu Færeyjum að falli.

Jónas Kristjánsson

DV