Orðheppnasti bankastjóri Landsbankans og tregastur þeirra til að segja af sér naut á sínum tíma svo mikils trausts kjósenda á Austfjörðum, að þeir kusu hann á þing til að gæta austfirzkra hagsmuna. Það var upphafið að löngum og afdrifaríkum stjórnmálaferli hans.
Á þingi naut hann svo mikils trausts flokksbræðra sinna, að þeir gerðu hann að ráðherra til að gæta hagsmuna flokksins. Eftir viðburðaríka setu í þeim stóli naut hann nægilegs trausts flokkseigendanna til að fá að gæta hagsmuna þeirra sem bankastjóri Landsbankans.
Bankastjórahrunið er eðlileg afleiðing þjóðskipulags, sem gerir ráð fyrir, að stjórnmál spanni rekstur fjármálafyrirtækja, stórfyrirtækja og sendiráða. Nú er raunar verið að víkka út þessa séríslenzku spillingu með því að fela fjármálaráðherra að reka Landsvirkjun.
Árum saman hefur Landsbankinn verið illa rekið fyrirtæki, svo sem sést af milljarðaafskriftum lána og framlögum úr ríkissjóði. Sukk bankastjóra í útlánum er mörghundraðfalt stærra en laxveiðisukkið, sem að lokum hefur orðið þeim að snöggu og maklegu falli.
Einn bankastjórinn hefur reynt að firra sig ábyrgð, væntanlega af því að hann hefur ekki hirt brennivín bankans. En hann vissi af laxveiðisukkinu og tók þátt í því, meðal annars með núverandi bankaráðherra, sem ekki hefur getað skýrt forsendur aðildar sinnar.
Þyngsta ábyrgð ber bankaráðið, sem sat fram til síðustu áramóta undir sterkri forustu framkvæmdastjóra stærsta stjórnmálaflokksins, þess manns sem harðast hefur barizt gegn því, að upplýst verði, hvaða stórfyrirtæki standi undir rekstri hvaða stjórnmálaflokka.
Í umboði Alþingis vakti bankaráðið yfir sukki og spillingu Landsbankans, tók þátt í laxveiðinni og leit mildum augum á útlánatapið. Það var ekki fyrr en með nýjum formanni ráðsins á þessu ári, að togaðar voru upp úr endurskoðanda bankans fyrstu hneykslisfréttirnar.
Fyrrverandi bankaráðsformaðurinn er raunar meiri persónugervingur hinnar pólitísku stýringar á þjóðlífinu en bankastjórinn, sem brennivínið hirti. Það er í gegnum slíka umboðsmenn, sem flokkseigendafélög stjórna fjármálastofnunum og stórfyrirtækjum ríkisins.
Landsbankamálið sýnir, hversu nauðsynlegt er, að ríkið selji fjármálastofnanir sínar og stórfyrirtæki og verður væntanlega til þess að flýta fyrir því. Ráðherrar eru meira en nógu valdamiklir, þótt þeir séu ekki að skipa fulltrúa sína í áhrifastöður utan stjórnmálanna.
Jafnframt verður að gæta þess, að flutningur valds frá stjórnmálamönnum til atvinnuforstjóra leiði ekki til aukinna yfirráða stórfyrirtækja yfir stjórnmálaflokkum. Með einkavæðingu ríkisfyrirtækja er brýnna en áður, að með lögum verði fjármögnun flokkanna upplýst.
Eins verður að gæta þess, að einkavæðing sé framkvæmd á markaðsverði, en ekki á undirverði eins og sala Síldar- og fiskimjölsverksmiðja ríkisins. Ekki má heldur framselja ríkiseinokun í hendur einkaaðila eins og gert var með Bifreiðaskoðun Íslands.
Fáokun hefur hingað til ríkt í bankarekstri og auðveldað Landsbankanum að standa undir sukkinu með óhóflegum vaxtamun inn- og útlána. Ástæða er til að óttast, að fáokunin haldist og harðni jafnvel, ef bankar verða sameinaðir um leið og þeir verða einkavæddir.
Vanda verður til einkavæðingar bankanna, því að hún er eina leiðin til að hindra sukk og óráðsíu á borð við þá, sem áratugum saman hefur einkennt Landsbankann.
Jónas Kristjánsson
DV