Frestun landsfundar Sjálfstæðisflokksins til hausts er flokknum til ills, en þjóðinni til góðs. Frestunin veitir Gunnari Thoroddsen forsætisráðherra aðhald til að sitja á verðbólgunni allar götur til hausts í stað þess að slaka á þegar í sumar.
Gunnar vill áreiðanlega ekki mæta landsfundi með verðbólguna lausa úr öllum böndum. Þess vegna er líklegt, að hann halli sér ívið meira að hugmyndum framsóknarmanna og óskum þjóðarinnar um frekari aðgerðir gegn verðbólgu.
Í ríkisstjórninni hefur um nokkurt skeið ríkt tiltölulega kurteislegur ágreiningur Framsóknar og Alþýðubandalags um viðnám gegn verðbólgu. Alþýðubandalaginu þykir nóg að gert, en Framsókn telur, að skerða þurfi lífskjör frekar.
Almenningur hefur tekið kjaraskerðingu vel og mun gera það áfram. Fólk skilur, að mikið er í húfi, og vill taka þátt í herkostnaðinum. Alþýðubandalagið mun sennilega átta sig á þessu, þegar líður á sumarið.
Síðan mun Gunnar Thoroddsen mæta á landsfundi sem landsfaðirinn, er megnaði að draga úr verðbólgu. Þeir grillumenn, sem nú vona, að sumarið færi þeim vopn gegn varaformanni flokksins, munu verða fyrir vonbrigðum.
Enda er sannleikurinn sá, að frestun landsfundar er ekki sérstaklega beint gegn Gunnari Thoroddsen, þótt sumir styðji frestunina á þeim forsendum. Ráðamenn flokksins vita vel, að pólitísk kraftaverk gerast ekki á sumrum.
Að baki frestuninni er bara hreinn og einfaldur vandræðaskapur. Hún er fálm manna, sem vita betur, en halda þó dauðahaldi í vonina um, að vandamálið fari burt og hverfi, ef því sé frestað. Þetta eru ráðþrot.
Geir Hallgrímsson vill ekki hætta formennsku og er studdur innsta kjarna flokkseigendafélagsins. Meirihluti þingflokks og miðstjórnar vill hins vegar losna við hann, þar á meðal margir þeir, sem eru ákaflega andvígir Gunnari Thoroddsen.
En nýi formaðurinn finnst ekki, hvorki í þingflokki né annars staðar. Stærsti flokkur þjóðarinnar er svo þjakaður af hæfileikaskorti, að þar finnst enginn maður, sem getur axlað byrðar flokksformennsku! Þetta er makalaust ástand.
Afleiðingin er sú, að flokkurinn blaktir eins og lauf í vindi. Framkvæmdastjórinn talar eins og véfrétt um, að fundir geti eins verið á hausti sem vori og að einu sinni hafi landsfundir verið á þriggja ára fresti.
Þunnar eru trakteringarnar í þessari röksemdafærslu framkvæmdastjórans. Af hverju ekki landsfund á 30 ára fresti, ef það gæti stuðlað að því, að forustumenn Sjálfstæðisflokksins þyrftu helzt aldrei að horfast í augu við raunveruleika?
Ef hryggur væri í Sjálfstæðisflokknum, mundi hann halda landsfund sinn á hefðbundnum tíma, mæta þar vandamálum sínum og gera út um þau. Sterkt stjórnmálaafl rokkar ekki um með hornsteina sína. En flokkurinn er bara lauf í vindi.
Hitt er svo rétt að benda sjálfstæðismönnum á, að þeir eiga raunar mann, sem getur tekið að sér flokkinn í tvö-fjögur ár, meðan menn leita dauðaleit að nýjum formanni. Hann verður að vísu tregur til, en mun sæta þegnskyldu.
Ingólfur Jónsson á Hellu hefur um skeið setið á friðarstóli, vel látinn af flokksmönnum almennt, en býr eigi að síður yfir nauðsynlegri formannshörku. Hann er maðurinn, sem Sjálfstæðisflokkurinn er að leita að, en sér ekki.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið