Sumarsögur af sauðfé

Greinar

Snemma í sumar var rafmagnsgirðing rifin niður á Auðkúluheiði og rúmlega þúsund fjár hleypt inn á friðaðan tilraunareit. Umsjónarmenn reitsins forðuðust að skoða mörkin á sauðfénu og sögðu einfaldlega, að “ómögulegt væri að komast að því, hver gerði þetta”.

Fyrr í vor var fé hleypt á ólöglegum tíma inn á Austurafrétt í Suður-Þingeyjarsýslu. Landgræðsla ríkisins, sem hafði bundizt skyldum um að vernda svæðið, féll frá kæru í von um, að þetta gerðist ekki aftur. Sauðfjárbændur voru friðhelgir í þessum tveimur dæmum.

Sauðfjárbændur og sveitarstjórnin í Grafningi komu í sumar í veg fyrir, að jörðin Hlíð yrði keypt úr sauðfjárrækt og friðuð. Séð var um, að nýr ábúandi stundaði sauðfé. Grafningur er eitt mest beitta og lengst beitta dæmið um yfirgang sauðfjárræktar hér á landi.

Margir þeirra, sem um málið fjalla, velta sér kollhnísa til að draga úr broddinum gagnvart sauðfjárbændum. Landgræðslustjóri sagði nýlega sauðfjárrækt til afsökunar, að “náttúruleg gróðureyðing hefði alltaf orðið einhver”, þótt sauðféð hefði ekki komið til.

Það er eins og landgræðslustjóri haldi, að eldfjöll hafi ekki gosið fyrir landnám og ekki orðið öskufall. Það er eins og hann haldi, að ekki hafi orðið sveiflur í árferði fyrir landnám. Hvort tveggja gerðist fyrir landnám og var láglendið þó gróið saman yfir Kjöl.

Í ofbeit og uppblæstri á Kili komu í sumar fram kolagrafir frá fyrri tíma. Þær staðfesta orð gamalla bóka um, að áður fyrr var jafnvel uppi á hálendinu nægur skógur til að gera til kola á Kili. Gróðureyðingin stafar alls ekki af náttúrunnar völdum, heldur mannsins.

Hinn sami landgræðslustjóri, sem afsakar sauðfjárbeitina, neyðist til að sjá nálina étna, ­ að 2000 hektara árleg landgræðsla í landinu nægir ekki til að vega á móti 3000 hektara gróðureyðingu af völdum ofbeitar. Hið árlega tap landsins og hans nemur 1000 hekturum.

Verjendur sauðfjárræktar kenna ekki bara náttúrunni um ofbeit sauðfjárins, heldur líka hrossum þéttbýlismanna. Samt er sú þaulræktun hrossa, sem nú er stunduð í þéttbýli og strjálbýli, að nærri öllu leyti á ræktuðu landi og þá nær eingöngu sem sumarbeit.

Hinn óþarfi hluti hrossastofnsins er að verulegu leyti í eigu sömu manna og þeirra, er reka sem sauðfjárbændur rányrkju á gróðri landsins. Undir forustu þingmanna reka þeir stóð sitt á fjall eins og þeim þóknast, þrátt fyrir lagaákvæði. Þéttbýlismenn koma þar ekki nærri.

Auk þess að kenna eldfjöllum og hrossum um afrek sauðfjár hefur einnig verið reynt að skella skuldinni á jeppa, fjórhjól og jafnvel vélsleða. Er þó hreinn og beinn eðlismunur á útlitsmengun, sem getur fylgt þessari tækni, og á hreinni landeyðingu, sem leiðir af sauðfé.

Undanbrögð af ýmsu því tagi, sem hér hafa verið rakin, eru sett fram til að drepa málinu á dreif, svo að sauðfjármenn geti haldið áfram hinni þjóðlegu iðju að láta kindur sínar éta upp landið. Ofbeitin var líka skiljanleg áður, þegar þjóðin átti varla málungi matar.

Nú eru hins vegar aðstæður slíkar, að hvarvetna þarf þjóðfélagið fólk til starfa í alvöru atvinnugreinum. Ennfremur mundi lausum störfum fjölga, ef þjóðfélagið þyrfti ekki lengur að borga árlega stórfé í styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til að halda uppi ofbeit.

Dæmi þessa sumars eru enn ein sönnun þess, að brýnasta mál lands og þjóðar er að fækka sauðfé með því að afnema hvers konar stuðning við ræktun þess.

Jónas Kristjánsson

DV