Sumt er enn á huldu

Greinar

Við vitum ekki, hvernig Baugsmálið fer. Við vitum þó, að það er ekki borðleggjandi, úr því að héraðsdómur kastaði því öllu fyrir borð eftir að hafa vakið athygli á þunnu roði í málsefni ríkissaksóknara. Við vitum hins vegar heilmikið um, hvernig málið hófst, um hagsmunina og baktjaldamakkið.

Við vitum úr upptækum tölvupósti, að Styrmir Gunnarsson, Kjartan Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson hittust til að skipuleggja málið. Þar gætti Styrmir einkum hagsmuna vinkonu sinnar, Jónínu Benediktsdóttur, og hinir einkum hagsmuna bláu handarinnar, Davíðs Oddssonar flokksformanns.

Við vitum, að málið snerist upphaflega um, að Baugsfeðgar hefðu farið illa með Gerald Sullenberger, sem var í samstarfi við þá og býr nú í einu fínasta hverfi Flórida, þótt Morgunblaðið skrifi um hann eins og hann búi í bæjarblokk. Við vitum, að málið snýst nú um aðra hluti.

Efnahagsbrotadeild réðst á skrifstofur Baugs og hafði ekki upprunaleg málsefni upp úr krafsinu. Til að lágmarka skaðann dró hún saman ný málsefni, allt niður í kaup á pylsu og hamborgara, sem brezka dagblaðið Guardian grínaðist með. Nú er Berlingske Tidende líka farið að gera grín að málinu.

Við vitum, að deilt er um, hvort birta hafi átt upplýsingar úr tölvupósti milli samsærisaðila og hvort segja hafi átt frá sambandi Styrmis og Jónínu, þótt það varpi ljósi á upphaf málsins. Morgunblaðið og fleiri áberandi aðilar eru ákaflega hneykslaðir á uppljóstrunum af því dónalega tagi.

Þessir aðilar eru hneykslaðir á fréttum, sem enginn efast um, að séu réttar. Þeir hneykslast hins vegar ekki á, að Styrmir velur, hvort hann segi fréttir, þegi fréttir eða búi til fréttir. Þeim finnst meintur dónaskapur í fréttum skipta meira máli en hvort Styrmir lætur þegja mikilvægar fréttir.

Við vitum, að ríkislögreglustjóri og efnahagsbrotadeild hans hafa engum árangri náð fyrir dómstólum í neinum málum og að þessir aðilar eru hallir undir formann flokksins. Við vitum ekki, hvernig sú sambúð fer fram, en þekkjum annað dæmi af grimmum hótunum formannsins í garð umboðsmanns Alþingis.

Við vitum þó, að Baugsmálið hófst í baktjaldamakki á skrifstofu Moggans og lá síðan um duldar slóðir inn á borð efnahagsbrotadeildar hins hlýðna ríkislögreglustjóra.

DV