Súr einokun.

Greinar

Eitt af hinum dularfullu fyrirbærum þjóðlífsins er súra nýmjólkin, sem Mjólkursamsalan í Reykjavík reynir að koma niður í neytendur á sumrin. Þetta gerist ár eftir ár, án þess að samsalan hafi nokkrar skýringar tiltækar.

Á þessu sumri hefur kastað tólfunum. Kvartanir berast í stórum stíl eftir hverja einustu helgi. Kvartar þó ekki nema hluti þeirra, sem neyðast til að fleygja súrri nýmjólk. Aðrir bera af vana harm sinn í hljóði.

Mörg dæmi eru um, að mjólkin er orðin súr á síðasta söludegi eða fyrr, þótt hún eigi að vera neyzluhæf í tvo daga fram yfir síðasta söludag. Og ekki geta neytendur keypt af öðrum, því að samsalan hefur einokun.

Stundum hefur verið gefið í skyn, að neytendur hefðu mjólkina of lengi utan kæliskápa eða hefðu ekki nógu kalt í kæliskápunum. Einnig hefur verið gefið í skyn, að ekki færi nógu vel um mjólkina í smásöluverzlunum.

Hvorugu þessu er lengur hægt að halda fram. Tilvikin eru orðin svo mörg og svo dreifð, að útilokað er að kenna neytendum eða smákaupmönnum um lélega endingu mjólkur. Aðalvandinn hlýtur að leynast annars staðar.

Samkvæmt lögum frá 1973 má stimpla nýmjólk þrjá daga fram í tímann. Heilbrigðisyfirvöld hafa heimilað undanþágu upp í fjóra daga fyrir helgar. Og loks hefur Mjólkursamsalan túlkað þessa undanþágu upp í fimm daga.

Nú segist samsalan vera hætt að stimpla fimm daga fram í tímann. Neytendasamtökin hafa hins vegar krafizt þess, að afnumdar verði allar undanþágur um dagstimplun mjólkur og að settum reglum verði fylgt í hvívetna.

Þessi krafa er sjálfsögð í ljósi reynslu sumarsins. Raunar er algerlega óskiljanlegt, að heilbrigðisyfirvöld skuli þverskallast við að sjá um, að einokunarfyrirtækið komi málum sínum í lag í grænum hvelli.

Rekstrarhagsmunir Mjólkursamsölunnar í Reykjavík verða að víkja, þegar hún getur ekki tryggt neytendum neyzluhæfa nýmjólk. Úr því að þar skortir sjálfsvirðingu, verður til skjalanna að koma ríkisvaldið, sem einokunina veitir.

Grunur leikur á, að nýmjólkin sé í mörgum tilvikum orðin tíu daga gömul, þegar ætlazt er til, að neytendur drekki hana. Altjend er orðin brýn nauðsyn að rannsaka allan feril mjólkur frá framleiðendum til neytenda.

Neytendasamtökin telja, að gamalli mjólk sé blandað saman við nýja mjólk og þannig seld sem nýmjólk. Mjólkurfræðingur í stjórn samtakanna telur, að mjólkurbú sæki mjólkina of sjaldan til bænda á sumrin.

Ennfremur hefur því verið haldið fram, að tankvæðingin valdi því, að erfiðara sé að rekja lélega mjólk til upprunans. Einhverjar eru skýringarnar og einokunarfyrirtæki eiga ekki að fá að yppta öxlum.

Einnig má benda eigendum mjólkurbúa og mjólkursamlaga á, að of eindregin hagkvæmnisjónarmið geti leitt til minni mjólkurneyzlu neytenda. Það er í þágu framleiðenda, að mjólkin komist óskemmd til skila á borð neytenda.

Ófremdarástandið hefur verið þolað árum saman. Á þessu sumri hefur mælirinn verið fylltur. Nú sameinast neytendur um þá kröfu, að heilbrigðisyfirvöld þessa lands vakni til lífsins og grípi í tauma einokunarinnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið