Súrálskir fjandvinir.

Greinar

Alusuisse og Alþýðubandalagið eru að drepa stóriðju á Íslandi í fæðingunni, Alusuisse óviljandi, en Alþýðubandalagið viljandi. Þessi tvö neikvæðu öfl koma skýrast í ljós í slagsmálastefnunni, sem súrálsmálið hefur tekið.

Alusuisse, sem á fyrstu stóriðjuna á Íslandi, hefur reynzt mjög frekt til fjárins og sennilega ólöglega frekt. Það hefur haldið Ísal á barmi hallarekstrar, þótt það fái raforku langt undir alþjóðaverði og Evrópuverði.

Framferði Alusuisse hefur stuðlað að vantrú Íslendinga á stóriðju í samlögum við fjölþjóðafyrirtæki. Það hefur útbreitt þá trú, að slík fyrirtæki séu ræningjaflokkar, sem affarasælast sé að eiga engin samskipti við.

Þetta fellur saman við sjónarmið Alþýðubandalagsins, sem alltaf hefur verið andvígt samstarfi við útlendinga um stóriðju. Andstaðan er miklu dýpri en hin yfirlýsta krafa um íslenzka meirihlutaeign í slíkum fyrirtækjum.

Í Alþýðubandalaginu og mörgum kjósendum þess er rómantískur strengur. Þar líta margir á stóriðju sem sálarlausa færibandavinnu, er eyði þjóðareðli Íslendinga. Og þeir, sem minnst vita um stóriðju, skrifa skáldsögur um hana.

Upp á síðkastið hafa sumir Alþýðubandalagsmenn séð í gegnum rómantíkina. Sumir kjósendur Hjörleifs Guttormssonar stóriðjuráðherra hafa meira að segja gert uppreisn gegn seinagangi hans í stóriðju fyrir Austfirðinga.

Fyrir súrálsmál var svo komið, að breið samstaða var í þjóðfélaginu um stóriðju, sem í upphafi eða smám saman yrði að meirihluta í eigu Íslendinga og væri starfrækt með virkri þátttöku Íslendinga í stjórn, tækni og sölu.

Það hefði verið í samræmi við slíka stefnu, ef Hjörleifur hefði sparað sér ásakanir og gífuryrði og látið hina ágætu súrálsrannsókn tala sínu máli. Þá hefði hann getað teygt skömmustulega álmenn nokkuð langt við samningaborðið.

Ef samningamaður á borð við Gunnar Thoroddsen hefði séð um ytri hlið súrálsmálsins, er líklegt, að niðurstaðan hefði orðið tvöföldun álversins og hægfara meirihlutaeign Íslendinga, auk rafskautavers og hærra orkuverðs.

Í staðinn setti Hjörleifur allt á hvolf. Hann neyddi Alusuisse til að bera sig mannalega og neita öllum ásökunum til að bjarga andlitinu. Við fáum ekkert meiri skaðabætur út á þetta, en samstarfsmöguleikinn er brostinn.

Þetta stafar af því, að Hjörleifur er sannfærður rómantíkus. Hann telur sig vera að reka út illan anda með því að berja á Ísal og Alusuisse. Hann meinti það, þegar hann sagði heppilegast að leggja álverið niður.

Með hamaganginum hefur Hjörleifur treyst rómantíkina í sessi í Alþýðubandalaginu og sáð henni víðar í þjóðfélaginu. Segja má, að eins konar náttúruverndarstefna Hjörleifs líffræðings hafi unnið orrustu.

Auðvitað var hann ekki einn um þennan árangur. Hinn blindi bandamaður hans er Alusuisse, sem hefur gert sitt bezta til að drepa áhuga Íslendinga á stóriðju. Þannig eru Alusuisse og Alþýðubandalagið eins konar fjandvinir.

Þetta er hörmuleg útkoma, því einn af mikilvægustu þáttum þess, að 300.000 manna þjóð geti lifað hér í framtíðinni, er, að hingað verði fengin stóriðja til að nýta orkulindir landsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið