Svarað út í hött

Greinar

Utanríkisráðuneytið hefur spurt brezka og rússneska utanríkisráðuneytið um kafbáta þessara ríkja á þeim slóðum, þar sem Suðurlandið fórst fyrir þrettán árum. Það hefur auðvitað fengið þau marklausu svör, að engir slíkir kafbátar hafi verið á þessum stað og tíma.

Annað hvort er utanríkisráðuneyti okkar úti að aka eða að það heldur, að þjóðin sé úti að aka. Menn fá upplýsingar með aðgangi að gögnum, en ekki með því að spyrja þá, sem hafa atvinnu af því að segja ósatt. Allur spurningaleikur ráðuneytanna er því út í hött.

Tilgangslaust er að spyrja innlenda eða erlenda stjórnmálamenn eða embættismenn að því, hvort eitthvað sé satt. Þeir svara bara því, sem hagkvæmt er að svara í það skiptið og hafa ekki einu sinni fyrir því að skoða, hvað segir í gögnum, sem þeir hafa í fórum sínum.

Annað hvort verða menn að fá aðgang að gögnum eða trúa því, sem þeir vilja. Því hafa lýðræðissinnar lengi krafizt, að stjórnkerfið verði gert gegnsætt, svo að menn sjái sjálfir, hvað þar hefur verið að gerast. Liður í því er að opna aðgang að gömlum stjórnvaldsskjölum.

Reglur eru um slíkt í flestum löndum. Í sumar voru opinberuð 40 ára gömul bandarísk gögn, sem sýna, hvar kjarnorkuvopn voru erlendis á þeim tíma. Af meintum ástæðum, sem varða öryggi ríkisins, var strikað yfir nokkur nöfn á listunum, sem voru í stafrófsröð.

Nokkrir sérfræðingar hafa leitt rök að því, að strikað hafi verið yfir nafn Íslands í stafrófsröðinni og aðrir sérfræðingar hafa leitt rök að því, að Ísland hafi átt að vera á allt öðrum lista, en ekki verið þar. Deilan byggist á, að útstrikun nafna gerði allt málið ógegnsætt.

Sá, sem stóð fyrir útstrikuninni, getur ekki síðan fullyrt, að eitthvert annað nafn en Ísland hafi verið strikað út, en því miður geti hann ekki upplýst, hvaða land það sé. Fullyrðingar hans um slík atriði hafa ekkert gildi annað en að færa sönnunarbyrðina til hans sjálfs.

Almennt gildir sú siðaregla, að menn séu saklausir unz sekt þeirra sé sönnuð. Í tilvikum sem þessum gildir hins vegar allt öðru vísi siðaregla. Hún segir, að þeir, sem liggja á upplýsingum, séu sekir, unz sakleysi þeirra sé sannað, væntanlega með birtingu gagnanna.

Þannig geta framkvæmdastjórar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ekki sagt, svo trúað sé, að Íslenzk erfðagreining hafi ekki greitt þessum flokkum 15-20 milljónir króna hvorum fyrir sig fyrir að sjá um, að ríkið gefi fyrirtækinu sjúkraskrár landsmanna.

Framkvæmdastjórar flokkanna liggja nefnilega sjálfir á gögnunum, sem sanna eða afsanna málið. Stjórnmálaflokkarnir hafa sjálfir séð um, að fjármál þeirra eru lokuð bók, þótt slíkar bækur hafi verið opnaðar í flestum vestrænum löndum beggja vegna Atlantshafsins.

Við vitum, að kosningabarátta Framsóknarflokksins í vor kostaði 60 milljónir króna. Engin leið er að reikna eðlilegan fjárstuðning við flokkinn upp í meira en 20 milljónir króna. Eftir standa 40 milljónir króna, sem eru greiðslur fyrir óeðlilegan aðgang að ríkisvaldinu.

Marklaus eru svör við fyrirspurnum um kafbáta, kjarnorkuvopn og mútur til stjórnmálaflokka. Við höfum rökstuddan grun fyrir sannleika, því að þeir, sem andmæla, liggja sjálfir á gögnum, sem skýra málið. Það segir sína sögu, að þeir skuli liggja á gögnunum.

Gegnsæi í stjórnmálum og stjórnsýslu með birtingu skjala er leið, sem önnur vestræn ríki eru farin að feta til að byggja upp trúnaðartraust í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV