Mjög erfitt er að hugsa sér, að menn, sem taka þátt í hvassri umræðu fjölmiðla um menn og málefni, geti um leið gefið greinum sínum bein eða óbein siðferðisvottorð frá siðareglunefnd Blaðamannafélags Íslands.
Gagnrýni er umtalsverður þáttur í þjóðmálaumræðu. Hún hlýtur meira eða minna að beinast að fólki, sem er í sviðsljósinu. Óhjákvæmilegt er, að þessu fólki finnist stundum með réttu eða röngu of nærri sér höggvið.
Markmiðið með stofnun siðareglunefndar Blaðamannafélagsins var m.a. að gefa fólki tækifæri til að koma á framfæri kvörtunum sínum í garð fjölmiðla – og hugsanlega fá nefndina til að veita áminningu, ef efni stæðu til.
Það var aldrei ætlunin, að ritstjórar eða gagnrýnir dálkahöfundar sætu í þessari nefnd, eigandi yfir höfði sér að þurfa að úrskurða í eigin máli. Slíkt þótti óviðeigandi siðleysi í þá daga, hvað sem nú viðgengst.
lndriði G. Þorsteinsson skrifar greinar um þjóðmál, bæði undir eigin nafni og dulnefni, sem hann hefur oft en óformlega viðurkennt sem sitt. Í þessum greinum er, sumpart í skjóli dulnefnis, vegið að mönnum á opinberum vettvangi.
Nú er ekkert við það að athuga, að höfundur skjóti sér undan formlegri ábyrgð og komi henni yfir á viðkomandi ritstjóra. Ekkert er heldur við það að athuga, að menn noti til málamynda dulnefni, sem eiga raunar ekki að dylja neitt.
Ekki er hins vegar hægt að skilja, hvernig lndriði G. Þorsteinsson telur sér siðferðilega fært að sitja í siðareglunefnd. Þar á hann sífellt á hættu að verða að fjalla um eigin sök, bæði vegna nafnlausra greina og undir nafni.
Það leysir engan vanda að bjóðast til að víkja úr sæti í slíkum málum. Í siðareglunefnd eiga alls ekki að sitja neinir menn, sem eru á kafi í dægurþrasi fjölmiðlanna, hvort sem er fyrir opnum tjöldum eða úr felum.
Það hlýtur að vera óþægilegt fyrir hina mennina í siðareglunefnd að úrskurða í máli nefndarfélaga síns, þótt hann sé úti á gangi á meðan. Slíkan skrípaleik þarf að hindra, áður en slysið gerist.
Svo kastar tólfunum, þegar formleg nafnleynd nefndarmanns er þáttur í aðferð til að vísa máli frá af tæknilegum ástæðum, svo sem nú hefur verið gert. Slíkt hlýtur að stríða gegn tilfinningu manna fyrir réttlæti.
Fólk mun telja þetta atvik dæmi um, að siðferði blaðamannastéttarinnar sé ekki í nógu góðu lagi. Það mun telja siðareglunefndina vera lið í samtryggingarkerfi og að þangað sé tilgangslaust að vísa málum.
lndriða G. Þorsteinssyni kann að þykja sniðugt að sleppa fyrir tæknilegt horn í skjóli dulnefnis. Og hann kann að bresta skilning á fáránleika aðstöðu hans í siðareglunefnd blaðamannafélagsins.
En þá ber félaginu að hafa vit fyrir honum og skipa í nefndina eingöngu menn, sem ekki eiga í neinum útistöðum um menn og málefni, til dæmis menn með reynslu í blaðamennsku, en starfandi á öðrum sviðum þjóðlífsins.
Seta lndriða G. Þorsteinssonar, með eða án dulnefnis, í siðareglunefnd er til skammar fyrir íslenzka blaðamenn. Þeir eiga nóg undir högg að sækja, þótt þeir smíði ekki sjálfir vopnin gegn sér.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið