Smám saman er stjórnarstefna Reagans Bandaríkjaforseta að koma í ljós. Hún reynist vera mjög markvisst fráhvarf frá meginstefnu síðustu áratuga þar vestra. Hún er vel skipulagt afturhald af svartasta tagi.
Mikilvægur þáttur hennar felst í minnkun opinberrar verndunar neytenda, launþega og minnihlutahópa. Annar mikilvægur þáttur felst í minnkun opinbers eftirlits með atvinnulífi. Og hinn þriðji felst í minni áherzlu á mannréttindi.
Opinber embætti, sem þjóna neytendum, launþegum og minnihlutahópum hafa sumpart alls ekki verið skipuð, sumpart seint og þá mönnum, sem annað hvort hafa engan áhuga á verkefnum embættisins eða eru þeim beinlínis andvígir.
Opinber embætti, sem þjóna atvinnulífinu, hafa hins vegar verið skipuð fljótt og vel. Og embætti, sem hafa eftirlit með atvinnulífinu, hafa verið skipuð mönnum, sem koma úr þeim greinum og hafa þar hagsmuna að gæta.
Stjórn auðlinda ríkissvæða hefur verið falin mönnum úr námugreftri, timbur- og olíuiðnaði. Stjórn umhverfismála hefur verið falin talsmönnum aukinnar nýtingar á kolum og kjarnorku og lækkunar gæðastaðla vatns og andrúmslofts.
Stjórn dómsmála og forsetaskrifstofu hefur verið falin mönnum, sem vilja draga úr afskiptum hins opinbera af siðferði í viðskiptum, til dæmis mútum og hagsmunatengslum og vilja almennt draga úr upplýsingaskyldu.
Meðal annars er byrjað að leggja áherzlu á að draga úr og leggja helzt niður starfsemi á sviði baráttu gegn hringamyndun og viðskiptamútum. Reynt hefur verið að leggja niður stofnun, sem vann að verndun lítilla fyrirtækja gegn stórum.
Sömuleiðis hefur verið reynt að leggja niður stofnanir á sviði réttlætis- og velferðarmála. Þar á meðal er jafnréttisráð, stofnun heilsu og öryggis á vinnustöðum, vöruvöndunarstofnunin og opinbera lögfræðiþjónustan.
Hrammur Reagans teygist líka til fátækra þjóða í nágrenninu. Hann gerði ítrekaðar tilraunir til að setja Ernest Lefever í embætti ráðherra mannréttindamála, en varð að beygja sig fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar.
Lefever var frægur fyrir andstöðu gegn því, að Bandaríkin setji markmið í mannréttindum í samskiptum við útlönd. Í raun þýðir þessi afstaða, að Bandaríkin skuli taka upp vinsamlegri samskipti við glæpastjórnir í útlöndum.
Þótt Lefever næði ekki embætti, hafa ráðamenn í Rómönsku Ameríku skilið stefnu Reagans. Þeir hafa aukið ofsóknir sínar gegn alþýðu manna heima fyrir og fá sjálfvirka syndaaflausn fyrir að segjast vera að berjast við kommúnista.
Reagan telur sig hafa umboð kjósenda til að draga úr ríkisbákninu, meðal annars með því að leggja niður skriffinnskustofnanir og fella niður höft á atvinnulífinu. Og rétt er, að báknið var orðið allt of mikið.
En grunntónninn að baki er þó sá, að stjórn Reagans er stjórn hinna ríku fyrir hina ríku. Hún er stjórn þeirra, sem aðstöðu hafa, til að tryggja þessa aðstöðu og magna hana. Hún er stjórn þeirra, sem fyrirlíta lítilmagnann.
Fyrir vestrænar þjóðir, sem standa andspænis æ skýrari dæmum um heimsvaldastefnu stjórnar Sovétríkjanna, er ákaflega dapurlegt, að í öflugasta bandalagsríkinu skuli svartasta afturhaldið vera tekið við völdum.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið