Svefnsæla á Búðum

Punktar

Dularfullt er að ríða að Snæfellsjökli. Á fjöruleiðinni frá Snorrastöðum um Stóra-Hraun og Skógarnes, um Stakkhamar og Garða, stækkar hann stöðugt og verður myndarlegastur að Búðum. Þegar enn nær dregur, minnkar fegurðin, því að ljótar undirhlíðar verða áberandi, þegar horft er frá Arnarstapa eða Hellnum. Oft er sagt, að dularmagn jökulsins sé mest á Hellnum, en mér finnst það vera mest í hrauninu á Búðum, þar sem menn og hestar hvílast vel. Ég hef verið með hesta í áningu á Búðum á hverju sumri í mörg ár og aldrei hafa þeir verið eins rólegir og sælir og einmitt þar. Þeir sofna bara.