Svei þeim Sameinuðu

Greinar

Oft hafa Sameinuðu þjóðirnar gengið í berhögg við eigin grundvallarforsendur í stofnskrá og sáttmála sínum. Einkum fóru þær út af sporinu, þegar þar ríkti öflugt bandalag harðstjóra Austur-Evrópu, íslams og þriðja heimsins, sem virtu forsendurnar að vettugi.

Nú er stjórnkerfi Austur-Evrópu hrunið til grunna og harðstjórar þriðja heimsins geta ekki lengur teflt saman heimsveldunum. Því hafa grundvallarforsendur Sameinuðu þjóðanna eflzt nokkuð, svo sem fram kom í Persaflóastríði og hernaðaraðgerðum í Sómalíu.

Framkoma Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í árásarstríði Serba gegn Bosníumönnum og öðrum Balkanþjóðum stríðir gegn þessari þróun í átt til stofnskrárinnar og sáttmálans. Óbeint hafa sáttatilraunir og aðrar aðgerðir af hálfu þess stutt landvinningastefnu Serba.

Hrapallegar eru tillögur frá Cyrus Vance og David Owen, sáttasemjurum Sameinuðu þjóðanna, sem lagðar voru fyrir sáttafund deiluaðila í Genf um helgina. Þar var gert ráð fyrir skiptingu Bosníu í sjálfstjórnarsýslur, sem aðeins að formi til lúti landsstjórn í Sarajevo.

Með tillögu þessari var í fyrsta lagi verið að tilkynna öllum þjóðum og þjóðabrotum, sem telja sig eiga harma að hefna í Austur-Evrópu, að það borgi sig að feta í fótspor Serba og hefja blóðuga þjóðahreinsun að þeirra hætti. Sameinuðu þjóðirnar muni blessa niðurstöðuna.

Í öðru lagi er verið að tilkynna upprennandi ofbeldismönnum í Austur-Evrópu, að Sameinuðu þjóðirnar muni láta kyrrt liggja, þótt óbreyttir borgarar séu myrtir tugþúsundum saman og konum sé nauðgað tugþúsundum saman í þágu hugsjóna á borð við Stór-Serbíu.

Áður hafði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna stutt við bakið á morðsveitum Serba með vopnasölubanni, er einkum kom í veg fyrir, að Bosníumenn gætu varið hendur sínar gegn herflokkum, sem voru og eru vel vopnum búnir frá Serbíu. Það bann gildir enn.

Enginn samningur um Bosníu er neins virði, nema hann geri ráð fyrir, hvernig tekið verði á stríðsglæpamönnum Serba, sem skipta þúsundum, allt frá Slobodan Milosevic niður í villidýrin í byggðum Bosníu. Þetta eru einir mestu stríðsglæpir aldarinnar í Evrópu.

Verið er að kortleggja þessa glæpi og eru nöfn margra verstu glæpamannanna þegar kunn. Það er út í hött, að Sameinuðu þjóðirnar geti í kjölfarið haldið sáttafund í Genf, án þess að meðferð þessara glæpa skipi þar verðugan sess, öllum sporgöngumönnum til viðvörunar.

Ekki er hægt að afsaka framgöngu Vance og Owens með því, að eitt séu góðviljuð mannréttindi og annað séu takmarkaðir möguleikar stöðunnar. Veraldarsaga síðustu áratuga sýnir einmitt ljóslega, að hagkvæmnissjónarmið af því tagi hefna sín fyrr eða síðar.

Við horfumst í augu við, að Boris Jeltsín Rússlandsforseti riðar til falls í Moskvu og að þar eru harðlínumenn að komast til aukinna áhrifa. Sumir áhrifamenn í þeim hópi hafa opinberlega hótað öllu illu, svo sem að flytja íbúa Eystrasaltsríkjanna nauðuga til Síberíu.

Arftakaríki Sovétríkjanna eru hafsjór slíkra þjóðernisvandamála. Azerar og Armenar heyja styrjöld. Borgarastyrjaldir geisa í Georgíu og Tadzhíkistan. Rússar seilast til áhrifa í Moldavíu og víðar. Til vopnaðra þjóðernisátaka hefur komið í tugum annarra tilvika.

Sameinuðu þjóðirnar magna vandræði sín í framtíðinni, ef þau gefa fordæmi á borð við tillögurnar, sem Vance og Owen lögðu fram í Genf um helgina.

Jónas Kristjánsson

DV