Sveigjanlegt forsetaembætti

Greinar

Vonandi dettur ráðamönnum Walt Disney aldrei í hug, að gera teiknimynd í Pocahontas-stíl um Snorra Þorfinnsson, sem fæddist á Vínlandi og fluttist árinu síðar til Grænlands. Þeir yrðu þó ekki í vandræðum með að þenja fyrsta æviárið hans upp í ofurvæmna sögu.

Pocahontas-teiknimyndin fer í öllum atriðum með sagnfræðilega rangt mál. Ef svipuð mynd væri gerð um Snorra, yrði sagnfræðinni ekki síður kastað fyrir róða. Ef myndin yrði síðan fræg, yrðum við í ofanánlag að lifa okkur inn í gerbreytta söguskoðun úr Hollywood.

Auðvitað dettur engum þetta í hug, enda ráða önnur sjónarmið ráðagerðum teiknimyndaframleiðenda en símtöl frá forsetum Bandaríkjanna eða Íslands. En málið sýnir þó, að forseti okkar hefur svo góðan virðingarkvóta, að menn grínast ekki að honum fyrir það.

Að öðru leyti hefur Ólafur Ragnar Grímsson verið í essinu sínu á heimavelli í útlöndum. Ferðalög til erlendra stórmenna liggja miklu nær eðli hans en ferðalög til kjósendanna utan Reykjavíkursvæðisins. Hann verður til fyrirmyndar sem yfirsendiherra þjóðarinnar.

Þannig bætir frambærilegur forseti stöðu landsins gagnvart útlöndum, þegar aðrir ráðamenn landsins reynast fremur litlir fyrir sér á erlendum vettvangi. Forsetinn talar aldrei upp til neins og hefur lag á að ræða alvörumál kumpánlega og af festu í senn.

Fyrir Íslendinga er þetta fyrst og fremst tækifæri til að nýta hæfileika manns, sem ekki er aðeins fyrirmannlegur í allri framgöngu, heldur ræktar af natni sambönd við aðra fyrirmenn úti um allan heim og hefur alla sína tíð unnið heimavinnuna sína upp á tíu komma núll.

Óneitanlega skyggir framtak forsetans óbeint á utanríkisráðherra, sem að undanförnu hefur einnig mátt sæta því, að forsætisráðherra fjallaði í auknum mæli um utanríkismál. Segja má því, að nú sé sótt að verksviði utanríkisráðherra úr tveimur áttum í senn.

Athyglisvert er, að forsetinn hitti forseta og varaforseta Bandaríkjanna í einkaheimsókn, en ekki í opinberri heimsókn, skipulagðri í utanríkisráðuneytinu við Hverfisgötuna. Þetta hefur valdið sárindum í ráðuneytinu, sem ekki hefur þvílík sambönd í útlöndum.

Forsætisráðherra hefur ákveðið að styðja framgöngu forseta Íslands í Washington, þótt hún sé hvorki hönnuð við Hverfisgötu né Lækjartorg. Ráðherrann veit af greind sinni, að forsetinn þekkir utanríkisstefnuna og kann nógu vel til verka til að fara ekki út af sporinu.

Ef ríkisstjórnin ber gæfu til að nýta hæfileika Ólafs Ragnars Grímssonar sem yfirsendiherra þjóðarinnar, hefur hún tækifæri til að láta gæta betur en ella hagsmuna þjóðarinnar í margvíslegum utanríkismálum, sem hafa verið að steðja að, einkum frá Evrópu.

Við þurfum greinilega að ná betri tökum á endurteknum hagsmunaárekstrum okkar við Norðmenn og við þurfum sífellt að gæta hagsmuna okkar í flóknum samskiptum við Evrópusambandið. Aðferðir ráðuneytis og ráðherra hafa dugað skammt að undanförnu.

Þetta er ekki spurning um, hver skyggir á hvern, heldur hvernig ólíkir hæfileikar nýtast á mismunandi hátt við fjölbreyttar aðstæður. Eftir frægðarför forsetans til Bandaríkjanna kemst ríkisstjórnin raunar ekki hjá því að gera forsetann að yfirsendiherra þjóðarinnar.

Forsetaembættið er svo skemmtilega loðið, að jafnan er unnt er að laga framkvæmd þess að sérstökum hæfileikum þess, sem því gegnir á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

DV