Sverrir stöðvar tunglin

Greinar

Margir telja ranglega, að frelsisöld í útvarpi hafi runnið upp í gær, þegar Sverrir Hermannsson menntaráðherra ritaði eftir dúk og disk undir þrjár reglugerðir um framkvæmd útvarpslaganna ársgömlu. Í raun skerða reglugerðirnar frelsi útvarpslaganna.

Samkvæmt reglugerðunum verður mjög lítið um, að unnt verði að taka við sjónvarpsrásum frá gervihnöttum. Aðeins ein rás, sem nú er rekin, hlýtur náð fyrir augum ráðherrans. Það er Music Box, sem sendir popp eða skonrokk þindarlaust í átján tíma á dag.

Efni af slíku tagi þarf ekki að þýða á íslenzku. Erlendir söngtextar fá sérstöðu, sem fæst annað efni gervihnatta fær. Þar með verða margir áhugamenn um gervihnattasjónvarp að sitja undir skonrokki, sem verður afar þreytandi eftir 1,8 tíma, hvað þá átján tíma.

Tölur um sjónvarpsnotkun sýna, að í Evrópu er mun meira horft á Sky, sem er blanda bíómynda, framhaldsþátta og skonrokks. Af því efni verður aðeins hægt að nota skonrokkið hér á landi. Hitt efnið þyrfti að texta, þar sem það er ekki sent úr beinni upptöku.

Reglugerðir ráðherrans gera ráð fyrir, að einungis megi nota hér á landi gervihnattaefni, sem tekið er upp beint af atburðum, sem gerast í sömu andrá, og sent viðstöðulaust um hnettina. Slíkt gildir aðeins um lítið brot af efni gervihnattarásanna.

Fréttarásirnar, sem nú eru komnar til skjalanna og senda fréttir stanzlaust, jafnvel allan sólarhringinn, senda yfirleitt ekki beint frá atburðum, sem eru að gerast í sömu andrá. Fréttaþættir þeirra eru settir saman í sjónvarpsstöðvum eins og gert er hér.

Reynt fólk veit, að ekki er unnt að texta eða endursegja slíka fréttaþætti um leið og þeir eru sendir út. Það er ekki hægt að snara ensku svo hratt, þótt margir séu góðir í þeirri tungu. Enn síður er von á aðgangi frétta á öðrum og erfiðari tungumálum.

Íslendingar geta því hvorki notfært sér Cable News Network né World Public News, þótt hinar tæknilegu aðstæður yrðu í lagi. Enn síður gætum við notað fréttir hinna mörgu gervihnattarása á öðrum tungumálum en ensku, sem hótelgestir í Reykjavík geta þó séð.

Margir ímynda sér, að nú renni upp öld íþróttafrétta á gervihnattarásum. Það er borin von. Íþróttarásin, sem nú er send um gervihnött, sendir ekki beint frá atburðum, sem eru að gerast í sömu andrá. Hún pakkar fréttunum saman og sendir síðan frá sér.

Sverrir Hermannsson hefur þannig strikað út möguleika Íslendinga á að horfa á Screen Sport, alveg eins og hann hefur hafnað þeim rásum, sem hér hafa verið nafngreindar, svo og TeleClub, Premiere, RTL Plus, Mirrorvision, The Childrens Channel, TV5 og FilmNet.

Ef til vill koma síðar til sögunnar rásir, sem senda fréttir eða íþróttaviðburði beint, í sömu andrá og þeir gerast, en slíkt er ekki fyrirsjáanlegt. Það verður því löng bið á, að ráðherra hleypi Íslendingum að gervihnöttunum, sem fjölgar óðum á himinhvolfinu.

Hið eina, sem hann vill leyfa okkur að hafa, er skonrokkið. Eina undankomuleiðin er að taka sér bólfestu í fjölbýlishúsi, sem hefur 36 íbúðir eða færri. Slík hús hafa undanþágu frá textunarskyldunni. Má því búast við, að skógur móttökudiska verði fljótlega skrautlegur.

Slíkar reglugerðir geta eingöngu komið frá ráðherra, sem opinberlega hefur fallið á íslenzkuprófi og er þess vegna með á heilanum, að íslenzk tunga sé í stórhættu.

Jónas Kristjánsson

DV