Frá Hóli í Hörðudal um Svínbjúg að Hítardal á Mýrum.
Þetta er skemmtilegasta leiðin um hálendið milli Mýra og Dala, enda er hún með öllu ófær jeppum. Tignarlegt er að koma á brún Svínbjúgs og horfa yfir Hítarvatn og fjallahringinn. Í Hólmi suðvestan vatnsins bjó Björn Hítdælakappi og þar var hann veginn í Hvítingshjöllum. Hítardalur er ein af sögufrægum jörðum landsins. Þar bjó Snorri Sturluson um skeið. Og þar varð mannskæðasti bruni landsins árið 1148, þegar Magnús biskup Einarsson brann þar inni með 80 manns. Hítardals er víða getið í Sturlungu. Í Selárdal er áin Skrauma, heitir eftir tröllskessu, sem missti son í ána. Því lagði hún svo á, að tuttugu manns skyldu drukkna í henni. Nú munu nítján hafa farizt þar, síðast 1806, þegar feðgar frá Gautastöðum drukknuðu í henni.
Förum frá Hóli vestur Hólsskarð yfir í Selárdal og síðan suður þann dal meðfram ánni Skraumu, vestan Hólsfjalls og austan Selárdalsborgar, síðan inn þverdalinn Burstardal sunnan við Hellufjall og vestan við Burst. Við förum dalinn til enda upp á Svínbjúg, grýttan hrygg á vatnaskilum. Beygjum til vesturs norðan við Svínbjúg og förum síðan niður sneiðinga um grónar brekkur að eyðibýlinu Tjaldbrekku við Hítarvatn. Förum niður með vatninu norðan- og vestanverðu, um eyðibýlið Gínanda, yfir Hítará og að eyðibýlinu Hólmi, þar sem er fjallaskáli. Síðan með vegi frá Hólmi, milli Hróbjarga að vestan og Bæjarfells að austan, suður að Hítardal.
29,7 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar
Nálægir ferlar: Fagraskógarfjall, Sópandaskarð, Rauðamelsheiði, Lækjarskógarfjörur.
Nálægar leiðir: Hítardalur, Lambahnúkar, Hallaragata, Eyðisdalur, Miðá, Klifháls.
Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson