Svindl virðisaukaskatts

Greinar

Virðisaukaskatturinn, sem ríkisstjórnin vill, að leysi núverandi söluskatt af hólmi, á að gefa ríkissjóði 18.150 milljónir á ári í stað 15.500 milljóna, sem söluskatturinn gefur. Í þessu felst árleg aukning skattheimtu ríkisins um 2.650 milljónir. Oft hefur munað um minna.

Sanngjarnt er þó að taka fram, að ríkisstjórnin hyggst jafnframt lækka tolla og vörugjald ­ og þar með tekjur sínar ­ af innfluttum matvælum um 550 milljónir króna. Sé þessi tala dregin frá, hyggst hún auka umsvif ríkissjóðs um heilar 2.100 milljónir króna á ári.

Ef ríkisstjórnin hefði aðeins ætlað sér að skipta á söluskatti og virðisaukaskatti, hefði henni nægt að láta 21% virðisaukaskatt leysa 25% söluskatt af hólmi. Þá hefði hún fengið í vasann sömu upphæð í nýja skattinum og í hinum gamla, 15.500 milljónir króna á ári.

Fyrir nokkrum vikum fréttist, að ríkisstjórnin ætlaði sér að hafa virðisaukaskattinn 25% eins og söluskatturinn er. Af því spruttu mótmæli, sem virðast hafa leitt til, að hún hefur lækkað sig niður í 24%. Það er skref í rétta átt, en samt alls ekki nógu langt.

Með frumvarpinu um virðisaukaskatt, sem ríkisstjórnin er að leggja fyrir Alþingi, leggur hún til, að ríkisumsvif verði aukin um rúmlega 2.100 milljónir króna á ári eða meira en 5%. Það er eitt stærsta ríkisdýrkunarskref hennar í átt til Stóra bróður.

Ríkisstjórnin afsakar sig með, að hún þurfi peninga til að milda áhrif skattbreytingarinnar á almenning, einkum fólk með þung heimili. Virðisaukaskatturinn leggist á almennar neyzluvörur þess, einkum innlenda búvöru og aðra matvöru, sem söluskatturinn geri ekki.

Ein spurningin, sem vaknar við þessa röksemd, er, hvers vegna þurfi að skipta á sköttum, ef það felur í sér 2.100 milljóna herkostnað í millifærslum af hálfu ríkissjóðs. Má þá ekki alveg eins hafa söluskattinn áfram og láta matvæli almennings í friði.

Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hafa sagt, að virðisaukaskatturinn sé réttlátari, af því að hann leggist á allt, en ekki bara flest eins og söluskatturinn. Þess vegna muni verða erfiðara að svindla undan virðisaukaskatti og að hann muni innheimtast betur.

Ein spurningin, sem vaknar við þessa röksemd, er, hvers vegna þurfi þá að fjölga starfsmönnum skattstofa úr 35 söluskattsmönnum í 70 virðisaukaskattsmenn. Felst ekki í því viðurkenning á, að virðisaukaskatturinn sé flóknari í vöfum og kosti meiri skriffinnsku.

Alvarlegasti veikleikinn í virðisaukapakka ríkisstjórnarinnar er, að 2.100 milljón króna tekjuauki ríkisins fer ekki nema að hluta til beinna aðgerða til að létta byrði barnafólks og annarra þeirra, sem þurfa að verja miklum hluta tekna sinna til kaupa á mat.

Í barnabætur eiga árlega að fara 525 milljónir og 175 milljónir í ellilífeyri eða samtals 700 milljónir. Þá standa eftir 1.400 milljónir, sem ríkið hyggst verja til lækkunar á húshitunarkostnaði og einkum þó til niðurgreiðslna til söluaukningar á kindakjöti og mjólkurafurðum.

Ríkisstjórnin kann að telja sér skylt að troða sem mestu af kjöti og smjöri ofan í neytendur. En vafasamt er, að það gagni þeim, sem ekki hafa ráð á slíku og verða að halda sig við fisk og smjörlíki, ­ þeim, sem virðisaukaskatturinn hlýtur að verða þungbærastur.

Ríkisstjórnin er bara að reyna að nota sér breytinguna yfir í virðisaukaskatt til að græða peninga til að nota til annarra og skaðlegra áhugamála Stóra bróður.

Jónas Kristjánsson

DV