Við búum í manngerðum heimi, sem fellur ekki vel að þörfum okkar. Hann kallar á lífsstíl, sem skaðar okkur. Til dæmis hreyfum við okkur lítið og borðum óhollan mat. Þetta leiðir til stórfelldra heilsuvandræða, einkum hjá þeim, sem hafa fengið áhættuþætti sjúkdóma í arf.
Lengi hefur verið vitað, að við borðum of mikið af hertri dýrafitu og of lítið af grænmeti og ávöxtum. Minna hefur farið fyrir vitneskju um vandræði, sem stafa af þeim sykri, sem bætt er í matvæli ofan á þann sykur, sem fyrir er í þeim. Nú er þetta sem betur fer að lagast.
Í DV á laugardaginn sagði Jón Bragi Bjarnason, prófessor í lífefnafræði, frá ýmsum hættum, sem fylgja viðbættum sykri, svo sem offitu, aukinni blóðfitu, auknu kólesteróli, aukinni sykursýki og auknum kransæðasjúkdómum. “Sykur er eitur,” sagði prófessorinn.
Áður hefur Helgi Valdimarsson læknaprófessor skýrt frá öðrum hættum tengdum sykri, svo sem sveppaóþoli. Aðrir fræðimenn hafa tengt sykur við krabbamein. Um þessar mundir er í Bandaríkjunum að byrja að ryðjast fram holskefla rannsókna, sem beinast að sykri.
Jón Bragi prófessor sagði einnig fullum fetum, að sykur væri sterkt fíkniefni. Það skýrir, hvers vegna fólk á erfitt með að venja sig af notkun viðbætts sykurs. Sykurneyzla kallar á meiri sykurneyzlu og stöðvun neyzlu kallar á fráhvarfseinkenni með tímabundinni vanlíðan.
Í Bandaríkjunum eru fjölmenn samtök sjálfshjálpar þeirra, sem hafa þjáðst af offitu og fylginautum hennar. Þetta fólk telur sig þurfa að varast ýmsa fæðu og alls staðar er þar sykur langefstur á blaði, ofar en fita. Hér á Íslandi tala foreldrar um sykurfyllerí í barnaafmælum.
Gegn þessum nýstárlegu kenningum talar afturhaldssamt Manneldisráð og ýmsir áhrifamiklir næringarfræðingar hér á landi, sem telja viðbættan sykur vera í lagi og jafnvel “bráðhollan” upp að vissu marki, svo að minnt sé á nýlega blaðagrein formanns Manneldisráðs.
Ekkert óeðlilegt er við, að þunglamaleg ríkisstofnun sé ekki með á nótunum, þegar breytingar eru örar og vísindasamfélagið er að skipta um skoðun. Slíkt er eðli stofnana af slíku tagi. Við þurfum því enn að bíða eftir, að ríkisvaldið fari að taka á sykri eins og hann á skilið.
Sem fulltrúi ríkiskerfisins hefur Manneldisráð lengi þverskallazt við að fá magn viðbætts sykurs tilgreint á umbúðum matvæla. Ráðið ber því við, að slíkt sé ekki í samræmi við reglur Evrópusambandsins. Sú túlkun er langsótt og skaðleg, enda hefur aldrei reynt á hana.
Manneldisráð hefur ekki heldur sinnt þeirri höfuðskyldu að vinna innan kerfisins að bráðnauðsynlegri grænmetisneyzlu með því að fá fellda niður ofurtolla á grænmeti, einkum lífrænt ræktuðu grænmeti. Þannig er Manneldisráð heilsufarslega næsta ónýt stofnun.
Offita og menningarsjúkdómar tengdir offitu munu á næstu árum verða eitt alvarlegasta og dýrasta heilbrigðisvandamál vestrænna þjóða. Í Bandaríkjunum eykst offita um 5% á ári um þessar mundir og svipað er að gerast hér. Því er nú kominn tími til að bregðast við af hörku.
Fyrsta skrefið er, að ríkisvaldið láti tilgreina á umbúðum matvæla, hve miklum sykri sé bætt í þau. Þá geta þeir, sem hafa áttað sig á hættunni, varað sig á slíkum mat. Annað skrefið er að færa núverandi tolla af grænmeti og yfir á sykur og viðbætt sykurinnihald matvæla.
Þetta er mikið hagsmunamál fyrir ríkið, sem horfist í augu við, að viðbættur sykur verði smám saman ein af helztu orsökum mikils sjúkrakostnaðar á Íslandi.
Jónas Kristjánsson
DV