Sykur er sæluduft

Greinar

“Kross þinn Jesú kæri / þá kemur að höndum mér / gefðu hann hjartað hræri / hvergi í burt frá þér / gleðinnar sykri stráðu á hann.” Þannig orti Bjarni Gissurarson fyrir um það bil þremur öldum og er það í fyrsta skipti sem sykurs er getið á íslenzkri tungu.

Næstu hálfa aðra öldina kemur sykur aðeins fyrir tvisvar í íslenzkum heimildum. Þeim fjölgar svo á síðari hluta nítjándu aldar, þegar höfðingjar fara að kaupa innfluttan sykur. Það er hins vegar ekki fyrr en á 20. öld, að sykur verður almenningseign hér á landi.

Sykur var lítt þekktur í Evrópu fram á sautjándu og átjándu öld, þegar ódýr reyrsykur fór að berast frá nýlendunum í Ameríku. Mannslíkaminn var engan veginn undir það búinn að taka við þessu hreina efni, sem nú er orðið að einni af helztu fæðutegundunum.

Það er eins og með brennivínið, að sumir þola sykur og aðrir ekki. Nýlegar rannsóknir í Bandaríkjunum benda til, að 75% þeirra, sem þjást af offitu, séu sykurfíklar. Þeir þjást af rugli í insúlínframleiðslu og insúlínvirkni og meðfylgjandi boðefnarugli í heilanum.

Að því leyti er sykur í flokki með öðrum fíkniefnum, sem valda rugli í framleiðslu og virkni boðefnanna dópamíns og serótoníns, öðru hvoru eða hvoru tveggja. Án skilnings á þessu næst ekki árangur af baráttu gegn menningarsjúkdómum, sem tengjast offitu.

Manneldisráð víða um hinn vestræna heim hafa hvatt fólk til að borða minni fitu og hafa náð þeim árangri, að fituneyzla hefur minnkað um fimmtung. Samt hefur offita aukizt og næringarsjúkdómar farið ört vaxandi, allt frá sykursýki yfir í hjarta- og æðasjúkdóma.

Hin hefðbundna næringarfræði, sem hefur verið kennd af gömlum kennslubókum, skilur ekki hugtakið fíkn. Það gerir ekki heldur hið íslenzka Manneldisráð né sú næringarfræði, sem kennd er á líkamsræktarstöðvum, þar sem menn drekka orkudrykki og éta orkuduft.

Þessir aðilar halda blákalt fram, að sykur sé ágætis krydd og bragðgóður orkugjafi. Fyrrum landlæknir Bandaríkjanna, C.E. Koop, telur hins vegar, að sykur sé vanabindandi fíkniefni, sem veldur því, að fólk missir stjórn á mataræði sínu og verður að sykurfíklum.

Á síðasta áratug 20. aldar fóru að hrannast upp í Bandaríkjunum niðurstöður rannsókna, sem benda til, að sykur sé mun skæðari en áður var talið. Nú er algengt að telja sykur með áfengi og tóbaki í hópi þeirra þriggja fíkniefna, sem valda þjóðfélaginu mestu tjóni.

Áður höfðu þúsundir félagsmanna samtakanna Overeaters Anonymus komist að þeirri niðurstöðu, að þeir næðu engum árangri í megrun nema kippa viðbættum sykri úr fæðuhringnum. Það er sykurinn, sem fellir fólk og fær það til að þyngjast óeðlilega á nýjan leik.

Þetta er skýringin á því, hvers vegna fólk fitnar og fær menningarsjúkdóma, þótt það fari eftir ráðum manneldisráða, sem boða minni fituneyzlu. Þetta er skýringin á því, hvers vegna fólki tekst ekki að halda lengi út mataræði, sem það lærir í vel meintum megrunarbókum.

Ef sykur er fíkniefni, skýrist margt af sjálfu sér. Þá skiljum við hvers vegna fólki tekst ekki að hafa það mataræði, sem það vill hafa; hvers vegna það missir stjórn. Þá skiljum við, hvers vegna menningarsjúkdómar halda áfram að hrannast upp á þekkingaröld.

“Gleðinnar sykur” var orðalag Bjarna Gissurarsonar fyrir þremur öldum. Hann komst nær skilningi á sykri sem sæludufti en margir þeir, sem síðar komu.

Jónas Kristjánsson

DV