Sykur, fita og salt

Greinar

Ef menn vilja sauma að áfengi og tóbaki á markaði, er eðlilegt, að óhollur matur fari sömu leið. Hann er meiri ógnun við heilsufar þjóða heldur en áfengi og tóbak. Hann veldur meiri kostnaði í heilsugeiranum. Því er eðlilegt, að ríkisvaldið leiti leiða til að hamla gegn óhollum mat.

Matvælafyrirtæki reyna með auglýsingaherferðum að troða óhollum mat upp á börn og unglinga. Fremstir fara þar gosdrykkjaframleiðendur, skyndibitastaðir og framleiðendur á morgunkorni. Kellogs er núna að kynna á brezkum markaði morgunkorn, sem er 43% sykur. Við höfum Mjólkursamsöluna.

Um áramótin voru auglýsingar á gotteríi og skyndibitamat bannaðar í sjónvarpi í Írlandi. Skylt er að merkja á umbúðir slíkrar vöru, að gos- og sykursnakk geti skemmt tennur, að skyndibita beri að nota í hófi og svo framvegis. Ennfremur hafa Írar bannað frægðarfólki að auglýsa skyndibitamat.

Svíar og Grikkir hafa sett lög, sem takmarka auglýsingar um slíkar vörur, er beinast að börnum. Bretar hafa komizt að raun um, að þrír fjórðu hlutar auglýsinga með barnaefni eru matarauglýsingar og 90% þeirra eru auglýsingar á vörum, sem hafa of mikinn sykur eða of mikla fitu eða of mikið salt.

Bretar munu á miðju árinu fylgja þessum niðurstöðum með sérstökum kröfum um litamerkingar. Heilsuspillandi vörur verða merktar rauðar, hlutlausar vörur merktar gular og hollar vörur verða merktar grænar. Í öllum tilvikum er miðað við innhald á ógnvöldunum þremur, sykri eða fitu eða salti.

Í hvítri bók brezku ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir margvíslegum öðrum vörnum gegn ofurafli auglýsenda á borð við Kellogs, Coca Cola og MacDonalds. Til greina kemur að leggja sjúkraskatt á slík fyrirtæki, sem sérfræðingarnir segja, að séu ekki að framleiða matvæli, heldur sælgæti.

Því á engum að koma á óvart, að stjórnmálaflokkar hér á landi taki upp þráðinn og beini augum sínum að auglýsingum í barnaefni sjónvarps. Það er bara fyrsta skrefið. Ef eiturfyrirtækin gefa ekki eftir, verður fyrr eða síðar brýnt að sérmerkja vörur þeirra betur og skattleggja þau.

Auðvitað munu margir andmæla þessu eins og þeir eru á móti aðgerðum gegn áfengi og tóbaki. Ríkið þarf hins vegar að gæta sinna hagsmuna, sem eru þeir, að neyzla á vörum með sykri, fitu eða salti veldur feiknarkostnaði hins opinbera í sjúkrageiranum. Meiri kostnaði en áfengi og tóbak valda.

Hingað til hefur almenningur ekki áttað sig á víðtækri óhollustu alls kyns matvæla. Þegar fólk hefur áttað sig, má búast við, að stuðningur við varnaraðgerðir muni eflast.

Jónas Kristjánsson

DV