Sykurfíkn

Greinar

Ef við komum í bókabúð í Bandaríkjunum, getum við séð tugi mismunandi bóka, sem mæla með mismunandi aðferðum við að öðlast kjörþyngd og halda henni. Í bókabúðum hér á landi er úrval bóka á ensku minna, en af fáanlegum bókum fjalla æði margar um megrun.

Einn gárunginn sagði vestanhafs, að ekki væru allar þessar mismunandi bækur á boðstólum, ef ein þeirra virkaði. Í þessu er mikill sannleikur. Það má ljóst vera, að fólki gengur afar illa að fara til lengdar eftir vel meintum ráðleggingum allra þessara megrunarbóka.

Sama er að segja um þá ráðgjöf, sem fer framhjá öllum slíkum bókum og segir fólki að borða minna og fara eftir opinberum manneldismarkmiðum. Þau markmið eru ágæt og byggja yfirleitt á næstnýjustu upplýsingum, en þau gera fáum kleift að halda sér í kjörþyngd.

Á sama tíma og upplýsingar um manneldismarkmið og hóflegt át annars vegar og upplýsingar um margvíslegar megrunaraðferðir hins vegar þenjast út með miklum hraða, heldur fólk áfram að þyngjast. Í Bandaríkjunum eykst offita fólks gegndarlaust, um 5% á ári.

Í skoðanakönnun DV í fyrradag kom fram, að 30% Íslendinga eru ósáttir við holdafar sitt. Margir þeirra hafa vafalaust reynt að bæta stöðuna, en ekki tekizt það. Í sama blaði kom fram, að offita barna er orðin eins mikil hér á landi og vestan hafs og vex hröðum skrefum.

Ljóst má vera, að fólk vill fara eftir ráðleggingum, sem það fær, en getur það ekki. Á því er ekki nema ein skýring. Í matnum hljóta að vera fíkniefni, sem haga sér eins og önnur fíkniefni og heimta meiri og meiri mat. Margir geta ekki varizt þessum fíkniefnum í fæðunni.

Á allra síðustu árum hafa augu manna beinzt að viðbættum sykri sem helzta fíkniefninu í daglegri fæðu manna. Í Bandaríkjunum hafa félagar í Overeaters Anonymus í fjörutíu ár haft viðbættan sykur efstan á blaði fíkniefna, sem þeir megi alls ekki snerta.

Rannsóknir allra síðustu ára í Bandaríkjunum benda til, að fíkn stafi af boðefnarugli í heilanum, sem sé sumpart ættgengt og stafi sumpart af umhverfisáhrifum. Gildir þá einu, hvort fíknin snúist um efni á borð við áfengi og tóbak eða atferli á borð við spilamennsku.

Sameiginlegt með allri fíkn, hvort sem hún snýst um fíkniefni eða fíkniatferli, er, að sumir ánetjast henni vegna boðefnarugls í heilanum. Ekki hefur enn verið sannað, að viðbættur sykur sé eitt þessara fíkniefna, en það mundi skýra ofát milljóna Vesturlandabúa.

Þegar ný viðhorf koma fram á borð við þau, að sykur sé eitur, sem valdi óstöðvandi matarfíkn, er eðlilegt, að hefðbundnir næringarfræðingar dagi uppi með kenningar úr gömlum kennslubókum og séu ekki með á nótunum. Næringarfræðin hefur aldrei skilið fíkn.

Ef við setjum viðbættan sykur á bekk með alkóhóli, nikótíni, læknadópi og ólöglegum fíkniefnum, þá gengur dæmið upp. Þá skiljum við, af hverju fólki tekst ekki þrátt fyrir mikla erfiðismuni að fara eftir ráðleggingum manneldisráða og vel meintra megrunarbóka.

Ef sykur er fíkniefni, er skiljanlegt, að vestrænar þjóðir séu að þyngjast með ógnarhraða á sama tíma og þekking á næringu eykst og dreifist hröðum skrefum. Þá er líka ljóst, að hefðbundnar aðferðir duga ekki gegn offitunni og leita þarf í nýjar smiðjur til úrbóta.

Hér á landi hefur á síðustu dögum sprungið út umræða um viðbættan sykur sem eitur og sykur sem fíkniefni. Umræðan er frábær, þótt sumum sé lítt skemmt.

Jónas Kristjánsson

DV