Sarah Boseley segir í Guardian, að bandaríski sykurvöruiðnaðurinn sé að reyna að koma Alþjóða heilbrigðisstofnuninni á hné með því að fá bandaríska þingið til að neita að borga til stofnunarinnar, ef hún fresti ekki birtingu ráðlegginga um mataræði. Í ráðleggingunum, sem birtar verða opinberlega á morgun, er sagt, að sykur og sykrur megi ekki vera yfir 10% fæðunnar, en sykurvöruiðnaðurinn vill, að miðað verði við 25%. Sykurvöruiðnaðurinn neitar að viðurkenna, að gosdrykkjaþamb leiði til offitu, og telur sig njóta skilnings hjá núverandi forseta Bandaríkjanna, sem hefur reynzt vera afar fjandsamlegur alþjóðlegum stofnunum.