Sykursæt þjóð

Greinar

Hnallþórustefna íslenzkra húsmæðra sætir ágjöf um þessar mundir. Rannsóknir Helga Valdimarssonar prófessors benda til, að sveppaóþol stafi einkum af geri og sykri og að losna megi við sjúkdóminn með því að hætta að nota vörur, sem auknar hafa verið þessum efnum.

Rannsóknir í Bandaríkjunum á þessum áratug hafa leitt í ljós, að boðefnaruglið í heilanum, sem einkennir fíkn í efni á borð við alkóhól og heróín, kemur einnig í ljós við fíkna notkun sykurs. Þannig er sykurinn loksins kominn í flokk skæðra fíkniefna, þar sem hann á heima.

Þetta skýrir auðvitað, hve erfitt margt fólk á með að hemja neyzlu sína á vörum með viðbættum sykri. Það stafar af, að sykur er fíkniefni. Notkun hans kallar á meiri notkun hans, af því að dópamínið í heilanum kallar fram öfug viðbrögð við það, sem heilbrigt má teljast.

Ofát og offita er eitt helzta heilbrigðisvandamál Íslendinga eins og flestra annarra vestrænna þjóða. Þótt fólk reyni af góðum og miklum vilja að stöðva ofát sitt og láta offituna hjaðna, ræður það ekki við málið, einfaldlega af því að sykur er fíkniefni, sem ánetjar fólk líkamlega.

Þáttur sykurs í sveppaóþoli og offitu bætist við það, sem fyrir var vitað um sykur, að hann veldur tannskemmdum, sykursýki og skaðlegum sveiflum í blóðsykri. Að öllu samanlögðu er um að ræða einn mesta örlagavaldinn meðal menningarsjúkdóma nútímans.

Íslendingar eru önnur mesta sykurneyzluþjóð heimsins, næst á eftir Bandaríkjamönnum. Meðalmaður innbyrðir 1 kíló af viðbættum sykri á viku hverri, auk þess sykurs, sem af eðlilegum ástæðum er í ýmsum matvælum. Þetta er hátt yfir því, sem venjulegur líkami þolir.

Sykurneyzla okkar er einna alvarlegust í taumlausu þambi gosdrykkja, sem eru meira en 99% sykur að þurrefnum. En sykurinn leynist víðar, meðal annars í vörum, sem haldið er að fólki sem hollum mat, svo sem ýmsum mjólkurvörum og morgunkorni.

Sykri er bætt í ýmsar mjólkurvörur, svo sem skólaskyr og skólajógúrt. Viðbættur sykur er 6-10% af þyngd algengra mjólkurvara, auk þeirra 4%, sem eru í þessum vörum af náttúrulegum ástæðum. Sem morgunmat mætti alveg eins gefa börnum súkkulaði.

Sykri er miskunnarlaust bætt í mikið auglýst og vinsælt morgunkorn, sem logið er inn á foreldra sem sérstakri heilsubótarvöru fyrir börn. Viðbættur sykur fer upp í 47% af sumu morgunkorni. Sem morgunmat mætti alveg eins gefa börnum brjóstsykur.

Algengt magn af sykri í kexi er um 17-29% og í kökum 21-28%. Þetta er sá matur, sem Íslendingar hafa lengi borðað milli mála og reikna með að bjóða gestum og gangandi. Ennfremur er varla til sú dós, glas eða pakki í matvöruverzlunum, að ekki sé þar viðbættur sykur.

Því miður er ekki skylt að tilgreina viðbættan sykur á umbúðum matvæla hér á landi, enda eru hagsmunir neytenda jafnan látnir víkja. Hjá Námsgagnastofnun má þó finna bækling um næringargildi matvæla, þar sem fram koma upplýsingar um viðbættan sykur.

Því miður er engin stofnun til á Íslandi, sem telur sér skylt að hafa eftirlit með því, að upplýsingar á umbúðum um innihald matvæla hafi við rök að styðjast. Þetta er einkum bagalegt gagnvart innlendri framleiðslu, þar sem ekki er við erlendar mælingar að styðjast.

Úrelt er að tala um sykur sem eins konar krydd í tilverunni. Hann er orðinn að uppistöðu í skaðlegum lífsstíl og hlýtur að víkja fyrir nýjum og heilbrigðari lífsstíl.

Jónas Kristjánsson

DV