Tillögur meirihluta reiðveganefndar um 38 milljón króna árlegt viðbótarframlag til reiðvega næstu fjögur árin jafngildir um það bil tvöföldun á framlagi til reiðvega.
Þetta er þó sýnd veiði, en ekki gefin, því að fulltrúi fjármálaráðuneytisins í nefndinni var ekki sammála niðurstöðunni og skilaði séráliti. Hann benti á, að tillagan væri “á skjön við efni skipunarbréfs nefndarinnar”, þar sem kemur fram, að henni sé ætlað að starfa með hliðsjón af því, að hlutfallslega verði “ekki veitt miklu meira fé af samgönguáætlun til reiðvegagerðar en nú er” gert.
Því verður ekki séð, að starf nefndarinnar komi hestamönnum að neinu gagni. Málið er í hnút milli ráðuneyta og tillaga meirihlutans nær ekki fram að ganga.
Fulltrúi fjármálaráðuneytisins vísaði í séráliti sínu á aðra leið til að bæta úr fjárskorti til reiðvega. Hann benti á samkomulag vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga frá 1982, þar sem m.a. er gert ráð fyrir, að við lagningu vega með bundnu slitlagi sé lögð reiðleið við hlið bílvegarins eða á öðrum stað, kostuð af nýbyggingarfé vegarins samkvæmt samgönguáætlun, en ekki af eyrnamerktu reiðvegafé.
Vegagerðin hefur í fæstum tilvikum farið eftir þessu samkomulagi og getur tæplega skotið sér á bak við, að ekki hafi komið tillaga um reiðleiðina frá samstarfsnefnd vegagerðarinnar og Landssambands hestamannafélaga, því að yfirleitt hefur þessi nefnd sem slík ekki fengið upplýsingar um bundið slitlag, fyrr en of seint.
Af skjölum reiðveganefndar kemur ekki fram, að nefndin hafi skoðað ábendingu fulltrúa fjármálaráðuneytisins eða gert tilraun til að ná samkomulagi um, að reiðleiðir séu lagðar fyrir nýbyggingarfé vega og án aðildar sérstaks reiðvegafjár, á þeim stöðum þar sem lagning slitlags síðan 1982 hefur spillt umferð hestamanna. .
Sú aðferð hefði þó í senn fullnægt óskum hestamanna um aukið fé til reiðvega og fullnægt skipunarbréfi nefndarinnar um hömlur á aukningu sérstaklega eyrnamerkts reiðvegafjár.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi, 3.tbl. 2003