Sýndarmörk á kvótaeign

Greinar

Sums staðar á Vesturlöndum hefur verið reynt að hamla gegn fáokun með því að setja lög um hámarksstærð fyrirtækja eða markaðshlutdeild þeirra á tilteknu sviði. Þetta hefur verið rökstutt með því, að umrætt svið sé svo mikilvægt, að þar megi ekki ríkja fáokun.

Undantekningarlaust hefur þessi aðferð mistekizt. Löng reynsla kennir, hvernig hægt er að leika á slík lög, einkum með því að stofna eignarhaldsfélög. Þannig verður til eignarhald, sem virðist dreift við fyrstu sýn, en er í rauninni þjappað, ef skoðað er ofan í kjölinn.

Í stöku tilviki hafa slíkar reglur valdið fáokunarfyrirtækjum tímabundnum erfiðleikum. Það gerist, þegar markaðshlutdeild þeirra er yfir nýju mörkunum og þau þurfa á skömmum tíma að búa til sjónhverfingar, sem koma markaðshlutdeild niður fyrir mörkin.

Miklu betri aðferð til að losna við fáokun er að bæta leikreglurnar og opna markaðinn. Það gerist meðal annars með því að afnema hömlur, sem bregða fæti fyrir nýja eða utanaðkomandi samkeppnisaðila. Í sjávarútvegi væri það gert með því að bjóða út kvóta.

Nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að fara vonlausu leiðina og framleiða lagafrumvarp, sem gerir ráð fyrir hömlum á kvótaeign útgerðarfélaga. Markmiðið er sagt vera að koma í veg fyrir samþjöppun kvóta í fáum höndum og minnkun á samkeppni.

Ekkert útgerðarfélag er nálægt mörkum frumvarpsins. Þau hafa nægan tíma til að þróa eignarhald á þann veg, að þau geti haldið áfram að þenja sig út innan hins þrönga skömmtunarkerfis, þannig að formlegt eignarhald hvers og eins verði innan við 8% kvótans.

Þetta vita allir eins og þeir vita, hver reynslan hefur verið í útlöndum. Nýja frumvarpið er ekki samið í góðri trú bjálfans, heldur er það tilraun til að slá ryki í augu þjóðarinnar. Markmið frumvarpsins er að búa til sjónhverfingu, sem sætti þjóðina við kvótakerfið.

Ef sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hefðu raunverulegan áhuga á að lúta þjóðarvilja í þessu máli, yrði smíðað lagafrumvarp um, að auðlindir hafsins væru eign þjóðarinnar og í umsjá ríkisins, sem leigði kvótann til hæstbjóðandi svo sem einu sinni á ári.

Útboð á leigukvóta tryggja margt í senn, eign þjóðarinnar á auðlindinni, tekjur þjóðarinnar af henni og harða samkeppni í atvinnugreininni. Fákeppnisfyrirtækin fengju samkeppni frá nýjum aðilum úr skyldum greinum eða allt öðrum greinum atvinnulífsins.

Raunar væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi og kaupa aðild að Evrópusambandinu með því að leyfa erlendum aðilum að taka þátt í uppboði leigukvótans. Þjóðin fengi arð sinn af kvótanum, hvort sem hæstbjóðendur yrðu innlendir eða erlendir aðilar.

Ef ekki er áhugi á aðild að Evrópusambandinu, má takmarka uppboðið við innlenda aðila, en ná samt töluverðri hagræðingu og miklum arði. Sjómenn og skipstjórar, fiskvinnslur og fiskheildsalar, svo og ýmsir aðrir innlendir aðilar vilja vafalaust ná í leigukvóta.

En sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hafa ekki áhuga á að reka erindi þjóðarinnar á einhvern slíkan hátt. Ráðherrarnir vilja þvert á móti þjónusta þá, sem hafa sölsað undir sig þjóðareignina í skjóli kvótareglna, sem stjórnmála- og embættismenn hafa framleitt.

Ráðherrar finna samt fyrir vaxandi andstöðu við afsal þjóðareignar. Þeir eru því að reyna að finna leiðir til að kasta ryki í augu þjóðarinnar og sefa reiði hennar.

Jónas Kristjánsson

DV