Sýndarveruleiki í Bosníu

Greinar

Að undirlagi vesturveldanna stendur til að hafa þing- og forsetakosningar í Bosníu um miðjan þennan mánuð. Brugðizt hefur hver einasta forsenda fyrir þessum kosningum, sem verða hreinn skrípaleikur. Samt heldur sjónarspilið áfram eins og ekkert hafi í skorizt.

Ætlunin var upphaflega, að kosningarnar yrðu áfangi í að steypa Bosníu saman í eitt ríki. Áhrifin eru hins vegar þveröfug. Enn frekari þjóðahreinsanir hafa farið fram sem liður í kosningaundirbúningi til þess að tryggja, að á hverjum stað sé einlit hjörð eins málsaðila.

Fyrir innrás Atlantshafsbandalagsins í Bosníu var talað um þjóðahreinsun í landinu, mest af hálfu Serba. Eftir innrásina og sýndarveruleikann, sem vesturveldin hafa komið á fót, er talað í háði um kosningahreinsun, sem er eins konar framhald þjóðahreinsunar.

Víðtækt kjörskrársvindl hefur farið fram og er öllum ljóst nema sýndarveruleikagengi Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Serbar láta afskrá sig í þorpum, sem eru í öruggum höndum og láta skrá sig í þorpum, sem áður voru byggð íslömum eða Króötum.

Undanfarið hafa Króatar í Mostar skipulega hrakið íslama úr íbúðum á vesturbakka árinnar til að tryggja, að þeir geti ekki komið á kjörstað. Mostar er raunar gott dæmi um, að sýndarveruleiki vesturveldanna gengur ekki einu sinni upp, þar sem Serbar eru ekki.

Allir vita, sem vita vilja, að væntanlegar kosningar verða ekki lýðræðislegar. Í þeim hlutum landsins, sem íslamar ráða, eru stjórnarandstæðingar barðir, en í hlutum Serba og Króata eru þeir hreinlega drepnir. Hver hluti landsins fyrir sig verður einræðisríki.

Ein helzta forsenda kosninganna var upphaflega, að þær yrðu lýðræðislegar. Önnur helzta forsenda þeirra var, að frjáls og óháð fjölmiðlun fengi að blómstra, svo að kjósendur fengju að sjá fleiri en eina hlið á hverju máli. Sú forsenda hefur líka brugðizt hrapallega.

Harðstjórum íslama hefur nokkurn veginn tekizt að koma í veg fyrir alla fjölmiðlun, sem ekki heyrir beint undir Flokkinn. Harðstjórum Króata og Serba hefur alveg tekizt að koma í veg fyrir slíka fjölmiðlun. Í öllum fjölmiðlum utan Sarajevo ríkir einhliða heift.

Umboðsmenn Atlantshafsbandalagsins hafa ekki gert neitt til að hafa hendur í hári eftirlýstra stríðsglæpamanna, sem eiga að mæta fyrir dóm í Haag. Herforingjar á staðnum segja, að slíkt væri framkvæmanlegt, ef fyrirskipun kæmi, en hún hefur bara alls ekki komið.

Í Bosníu ganga stríðglæpamenn lausir. Þar er hvorki málfrelsi né prentfrelsi. Þar er ekki frelsi til að mynda félög eða flokka. Þar er ekki frelsi til að ferðast um. Þar er ekki frelsi til að kjósa í upprunalegri heimabyggð. Þar er enginn grundvöllur fyrir lýðræðislegar kosningar.

Kosningarnar eru ekki haldnar af því að hálft eða eitt skilyrðanna hafa verið uppfyllt, heldur af því að Clinton Bandaríkjaforseti vill halda sýndarveruleikanum gangandi vegna forsetakosninganna heima fyrir. Hann vill geta kallað flesta hermennina heim fyrir kosningar.

Þetta er svipaður sýndarveruleiki og þegar bandaríska hermálaráðuneytið segist hafa gert loftárásir á Írak í refsingarskyni fyrir brot Saddams Husseins á vopnahléssamningi. Árásirnar voru ekkert annað en nokkrar eldflaugar, sem skotið var stefnulaust út í loftið.

Það er eitthvað meira en lítið að sjálfsvirðingu Vesturlanda, þegar misheppnaðar tilraunir til sýndarveruleika eru orðnar að sjálfum hornsteini hermálastefnu þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV