Sýnið mannlegt vit.

Greinar

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur að undanförnu talað af léttúð og takmörkuðum skilningi um vandræði þeirra, sem ekki hafa lengur til hnífs og skeiðar vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Vandræði einstæðra foreldra og barnmargra foreldra eru ekki þess eðlis, að Steingrímur geti beðið eftir bænarskrám frá aðilum vinnumarkaðarins um félagsmálapakka, sem liðki fyrir undirritun nýrra kjarasamninga á síðustu stundu.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ber ábyrgð á að hafa kosið að skera niður verðbólguna og umframeyðsluna á kostnað láglaunafólks. Það er vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, að fólk með þunga framfærslu er að komast á vonarvöl.

Þetta verða Steingrímur og ríkisstjórnin að skilja. Þeirra á frumkvæðið að vera. Komið er í eindaga, að ráðamenn sýni “mannlegt vit”, svo sem Björn Þórhallsson, varaforseti Alþýðusambandsins, hvatti til í fyrra.

Ráðherrunum hefur réttilega verið hrósað fyrir harða atlögu að verðbólgu og umframeyðslu. En ríkisstjórnin má ekki verða svo drukkin af eigin velgengni, að hún sjái ekki hinar sorglegu afleiðingar fyrir lítilmagnann.

Tilraunir til að leysa vandann með lögbundnum lágmarkslaunum og þrengingu launastigans eru dæmdar til að mistakast, jafnvel þótt samningsaðilar á vinnumarkaði reyni slíkt í einlægni, sem sagan segir okkur, að þeir gera ekki.

Þeir, sem vegna eigin verðleika, menntunar, forréttinda eða tilviljunar gegna mikilvægum störfum, verða reynslu sinnar vegna svo verðmætir, að fyrirtækin hleypa þeim á launaskrið, svo að þeir fari ekki til annarra.

Minnstu máli skiptir, hvort hálaunafólkið fær sinn launamismun í kjarasamningum eða í launaskriði í kjölfar kjarasamninga. Óraunsætt væri að halda, að lögfest lágmarkslaun og þrenging launastiga hamli gegn slíku. Það framleiðir bara verðbólgu.

Sem betur fer gegnir mikill meirihluti verkfærs fólks störfum, sem eru þess eðlis, að tekjur duga fyrir nauðþurftum og töluverðu af óþarfa þar á ofan. Þetta fólk hefur getað mætt erfiðleikunum með því að spara ýmsan óþarfa.

En 25% niðurskurður lífskjara er meira en sumt fólk þolir. Það er minnihluti þjóðarinnar, ef til vill um tíundi hver Íslendingur. Þessi undirstétt er svo fámenn, að fáir verða til að gæta hagsmuna hennar.

Ítrekað hefur verið bent á, að ein bezta leiðin til hjálpar sé að breyta niðurgreiðslum landbúnaðarafurða í fjölskyldu- eða barnabætur til láglaunafólks. Lífskjörin mótast nefnilega meira af framfærslubyrði en láglaunastöðu.

Slík tilfærsla bætir mjög hag þeirra, sem drekka vatn, af því að þeir hafa ekki efni á mjólk; borða fisk og hrossakjöt, af því að þeir hafa ekki efni á dilkakjöti; og borða smjörlíki, af því að þeir hafa ekki efni á smjöri.

Þessi lausn hefur þann kost, að hún býr ekki til peninga, sem ekki eru til, heldur færir þá frá vel stæðu fólki til illa stæðs. Ríkisstjórnin getur svo sem farið aðrar leiðir, ef það hentar henni, en hún má ekki sitja með hendur í skauti.

Vonarvöl fólks er hliðarverkun aðgerða ríkisstjórnarinnar, en ekkert sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um í frjálsum samningum. Á þessu þurfa Steingrímur og ríkisstjórnin að átta sig. Nú þarf að sýna mannlegt vit og það strax.

Jónas Kristjánsson

DV