Tækifæri til siðvæðingar

Greinar

Hinn nýi dómsmálaráðherra hefur ógilt þrjár stöðuveitingar fyrrverandi dómsmálaráðherra og hefur þá fjórðu til endurskoðunar. Allar voru þessar stöður veittar á elleftu stundu, þegar ráðherrann var að fara frá völdum, og allar féllu þær í hlut flokksfólks hans.

Þótt menn kalli ekki allt ömmu sína í pólitískri spillingu á Íslandi, keyrði um þverbak hjá fyrrverandi dómsmálaráðherra. Afturköllun stöðuveitinganna er dæmi um, að takmörk séu fyrir því, hvað hægt sé að ganga langt gegn góðum siðum í meðferð ráðherravalds.

Afturköllunin má hins vegar ekki leiða til, að nýir ráðherrar telji sig almennt geta ógilt gerðir forvera sinna, ef þeim líkar þær ekki. Þess vegan er mikilvægt, að ekki verði látið við ógildinguna sitja, heldur verði settar reglur um, hvernig ógilda megi ráðherraðgerðir.

Íslendingar eru svo frumstæðir í siðferði, að losarabragur býður hættunni heim. Bezt er, að til séu sem skýrastar reglur um, hver séu mörk réttrar beitingar og misbeitingar ráðherravalds og í hvaða tilvikum megi ógilda gerðir ráðherra, sem hafa misst embætti sitt.

Setja þarf reglur um ýmislegt fleira, sem hingað til hefur verið talið á gráu svæði milli siðferðis og siðleysis, einkum í þeim tilvikum, að ráðherrar hafa hneigzt til að ganga á lagið í siðleysi. Aukin þáttaka ríkissjóðs í kosningabaráttu ráðherra er skýrt dæmi um þetta.

Ferðalög starfsmannastjóra forsetaembættis Bandaríkjanna hafa leitt til umræðu þar í landi um, hver séu mörk ferðalaga í opinberri þágu, í flokksþágu og einkaþágu. Einnig hefur komið í ljós, að þar í landi eru til reglur um aðskilnað þessara þriggja ferðategunda.

Æskilegt er, að hin nýja ríkisstjórn setji hér á landi svipaðar reglur, er geri ráð fyrir, að stjórnmálaflokkar endurgreiði ríki, þegar ráðherra ferðast til flokksfunda og að hann endurgreiði sjálfur ríkinu, þegar hann ferðast í einkaerindum, ef ríkið hefur lagt út fyrir ferðunum.

Aðgerðaleysi í þessu efni vekur ugg um, að hin nýja ríkisstjórn hafi takmarkaðan áhuga á bættu siðferði í stjórnmálum og að einstakir ráðherrar séu jafnvel að gæla við að misnota aðstöðu sína á svipaðan hátt og sumir ráðherrar fráfarandi ríkisstjórnar urðu frægir af.

Ef ekki er gripið í taumana, hafa slík atriði tilhneigingu til að versna smám saman. Eftirmenn telja sig geta hagað sér eins og fyrirrennarar og sumir túlka mál á þann veg, að þeir ganga í raun heldur lengra. Siðleysi er ennfremur afar smitnæmur sjúkdómur.

Svipaðar reglur þarf að setja um veitingar og aðra risnu. Setja þarf mörk milli þess, sem gert er í þágu ríkisins, í þágu flokksins og í þágu sjálfs ráðherrans, svo að ríkið sé ekki að greiða flokksveizlur og einkaboð ráðherra, svo sem tíðkaðist í tíð fráfarandi ríkisstjórnar.

Ekki er síður mikilvægt, að settar verði á blað einfaldar reglur um, hver séu mörk kynningarstarfs ráðuneyta og áróðurs ráðherra í kosningabaráttu. Misnotkun ráðherravalds til útgáfu á bæklingum fyrir Alþýðubandalagið keyrði um þverbak í síðustu ríkisstjórn.

Ef tækifærið verður ekki notað til siðvæðingar núna eftir kosningar, er hætt við, að freistingin læðist að sumum núverandi ráðherrum, þegar næst dregur að kosningabaráttu. Bezt er að leysa málið strax, því að allir tapa að lokum, ef spillingin nær að festa sig í sessi.

Því miður bendir fátt til, að hin nýja ríkissjórn hyggist setja siðareglur um meðferð ráðherravalds, svo að átæða er til að óttast, að hún lendi líka í svínastíunni.

Jónas Kristjánsson

DV