Oft telja stjórnendur fyrirtækja og stofnana óþægilegt að svara spurningum fjölmiðla. Víða um heim er sá háttur hafður á við slíkar aðstæður, að þeir neita að svara spurningunum. Er þá skýrt frá neituninni og fjölmiðlarnir reyna að afla upplýsinganna á annan hátt.
Hér á landi hefur oftast verið farið eftir þessari reglu í samskiptum forsvarsmanna og fjölmiðla. Nýlega hefur þess þó gætt í auknum mæli, að ráðamenn fyrirtækja og stofnana víki sér ekki undan svari á hefðbundinn hátt, heldur fari beinlínis með rangt mál.
DV spurði í haust þáverandi formann stjórnar Hafskips, hvort fundað hefði verið með hugsanlegum kaupanda um sölu fyrirtækisins. Formaðurinn harðneitaði þessu og hafði þar á ofan stór orð um, hvílík firra þetta væri. Skömmu síðar kom í ljós, að viðræður höfðu átt sér stað.
Í fyrstu varði þáverandi stjórnarformaður ósannindi sín með því að halda fram, að viðræðurnar hefðu snúizt um sölu á hluta af rekstri fyrirtækisins. en ekki á fyrirtækinu í heild. Átti hann þá við, að rætt hefði verið um Íslands-, en ekki Atlantshafssiglingarnar.
Hin tæknilega útskýring breytir því ekki, að gerð var tilraun til að villa um fyrir almenningi. Hið sama var uppi á teningnum, þegar forstjóri Arnarflugs sagði öðrum fjölmiðli, að hann hefði ekki sagt upp störfum hjá félaginu “í gær”, eins og hann orðaði svarið.
Þessi forsvarsmaður var einnig með tæknilegri brellu að reyna að villa um fyrir almenningi. Hann var að reyna að koma í veg fyrir, að uppvíst yrði um, að hann hafði sagt starfi sínu lausu. Hann þóttist fara formlega með rétt mál, en fór efnislega með rangt mál.
Síðar varði hann þetta með því að vísa til þess, að hann og stjórn félagsins hefðu samið um að skýra ekki frá málinu fyrr en eftirmaður væri fundinn. Slíkt samkomulag er verjandi, ef það fjallar um neitun svara, en ekki, ef það felur í sér efnisleg ósannindi.
Stjórnendur fyrirtækja eru ekki einir um að hafa hætt sér út á hálan ís í slíkum efnum. Á svipuðum tíma og ofangreindar rangfærslur voru bornar á borð voru embættismenn í heilbrigðiskerfinu á sama hátt að hindra, að almenningur fengi að vita um eyðni á Íslandi.
Tveir sérfræðingar í sjúkdómi þessum, sem ýmist er kallaður eyðni, alnæmi eða ónæmistæring; svo og landlæknir, héldu því fram lengi vel gagnvart DV, að enginn slíkur sjúklingur lægi á sjúkrahúsi hér á landi. Einn væri með svokölluð forstigseinkenni.
Þessir embættismenn heilbrigðiskerfisins geta auðvitað reynt að verja sig með tæknilegum útskýringum eins og hinir tveir. En það breytir því ekki, að þeir voru að reyna að koma því inn hjá almenningi, að eyðni væri skemmra á veg komin hér á landi en var í raun.
Svo harðskeyttir voru þeir, að tveimur dögum eftir fyrsta mannslátið af völdum eyðni héldu þeir því enn fram, að enginn slíkur sjúklingur væri hér, hvað þá að einhver hefði látizt. Þeir fetuðu þannig í fótspor ýmissa yfirvalda í Afríku, sem hafa reynt að breiða yfir eyðni.
Augljóst er, að landlæknir hlýtur að lenda í erfiðleikum í framtíðinni, er hann telur sig þurfa á fjölmiðlum að halda, úr því að þeir hafa nú ástæðu til tortryggni.
Um öll þessi dæmi má segja, að tæknilegu ósannindin hafa ekki borgað sig. Þau verða vonandi öðrum til viðvörunar, svo að niður falli hinni nýi ósiður.
Jónas Kristjánsson
DV