Tæknilegar hindranir

Greinar

Árangur í sameiginlegu framboði flokka í byggðakosningum leiðir ekki til þess, að búast megi við sameiginlegum listum flokkanna í alþingiskosningum. Þótt slíkur árangur vísi í átt til tveggja flokka kerfis, koma tæknilegar hindranir í veg fyrir greiða framkvæmd málsins.

Listakosningar freista alltaf til sérframboða, þegar sérsjónarmiðum er ekki talið borgið í regnhlífarsamtökum á borð við R-listann og D-listann í Reykjavík. Samstarf getur haldizt sums staðar og um tíma, en ekki alls staðar og alltaf. Regnhlífarsamtök eru óstöðugt fyrirbæri.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð meiri festu en önnur regnhlífarsamtök, en það hefur ekki fengizt ókeypis. Þegar margar vistarverur eru í húsi flokks, hættir hann að verða málefnamiðstöð og verður að kosningabandalagi í valdaklúbbi stjórnmálamanna og fylgismanna þeirra.

Slíkur flokkur getur orðið með afbrigðum sveigjanlegur. Hann skiptir eins og ekkert sé um borgarstjóra í miðri á og tekur upp vinstri stefnu í miðri kosningabaráttu eins og að drekka vatn. Málefnalega er minni festa í honum en regnhlífarsamtökum á borð við R-listann.

Uppbótarkerfi þingkosninga dregur úr líkum á sameiginlegum framboðum af staðbundnu tagi. Slík framboð trufla nýtingu atkvæða til uppbótarsæta. Kerfið er í raun þannig, að kjósendur eru að hluta til að greiða atkvæði í öðrum kjördæmum en sínu eigin og vita ekki í hverjum.

Með einmenningskjördæmum væri hins vegar hvatt til kerfis tvennra regnhlífarsamtaka á borð við R-listann og D-listann í Reykjavík. Eins og stjórnmálaflokkum er háttað hér á landi nú til dags mun þeim reynast auðvelt að renna í tvær sængur í kerfi einmenningskjördæma.

Pólitískur grundvallarmunur hefur minnkað. Sem dæmi má nefna, að undir forustu Ólafs Ragnars Grímssonar hefur Alþýðubandalagið orðið að eins konar Möðruvallahreyfingu Framsóknar. Kvennalistinn gæti málefnalega séð allt eins verið kvennadeild Framsóknar.

Öflin að baki R-listans í Reykjavík snúast um pólitíska miðju, sem er á þröngu bili milli Möðruvallahreyfingarinnar sálugu og Framsóknarflokksins, Að baki D-listans eru öfl, sem snúast um pólitíska miðju, sem er á þröngu bili milli Bændaflokksins sáluga og Framsóknar.

Ekkert ætti að vera því til fyirstöðu í kerfi einmenningskjördæma, að þjóðin safnaðist í tvo Framsóknarflokka, sem skiptust á um að fara með völd að engilsaxneskum hætti. Annar væri með R-lista ímynd og hinn með D-lista ímynd, en innihaldið væri mjög svipað.

Það leiðir af þessum hugleiðingum, að ekki er ástæða til að reikna með umtalsverðum ágreiningi innan meirihluta R-listans í Reykjavík á kjörtímabilinu. Með nokkru lagi ætti R-listinn að geta lifað af kjörtímabilið og að því loknu verið álíka frambærilegur kostur og D-listinn.

Þá mætti segja, að eins konar brezku ástandi yrði komið á í Reykjavík. Það fælist í, að meirihlutaskipti yrðu í sumum borgarstjórnarkosningum, en ekki öðrum. Embættismanna- og smákóngagengið héldi líklega áfram að ráða ferð eins og það hefur gert um langan aldur.

Eins og sjá má, að í sumum byggðum koma málefni ekki í veg fyrir samstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags, þá er ekki efnislega ástæða til að efast um, að hinir ýmsu Framsóknarflokkar geti með ýmsum hætti myndað með sér regnhlífar- eða kosningabandalög.

Þröskuldurinn felst hins vegar í tæknilegum aðstæðum í alþingiskosningum, annars vegar í kerfi framboðslista og hins vegar í úthlutunarkerfi uppbótarsæta.

Jónas Kristjánsson

DV