Á sjöunda áratugnum voru skipuleggjendur mótmæla gegn stríðinu við Vietnam hálft fimmta ár að tuttugfalda þátttöku í mótmælaaðgerðum. Nú eru skipuleggjendur mótmæla gegn fyrirhuguðu stríði við Írak aðeins hálft ár að tuttugfalda þátttöku í mótmælaaðgerðum. Jennifer Lee segir í New York Times, að þessi aukni hraði stafi af samskiptatækni nútímans, netinu og símanum. Í tölvupósti og símaskilaboðum er hægt að boða mótmæli og breyta stað og stund fyrirvaralítið. Þegar hundruð þúsunda og jafnvel milljónir manna komu á einn stað á sama tíma fyrir rúmri viku til að mótmæla Íraksstefnu Bandaríkjastjórnar, var engin stjórnmiðstöð að baki. Ólíkir hópar gátu unnið saman að einu marki, án þess að neitt kerfi væri að baki. Skilaboð bárust með leifturhraða um samfélagið. Þetta veldur ráðamönnum og lögreglustjórum mikilli skelfingu, ekki sízt í löndum eins og Kína og Singapúr, þar sem mótmæli eru illa séð. Þannig er tækni nútímans orðin að vopni almennings gegn valdhöfum, sem hunza vilja almennings. Það er engin tilviljun, að milljónamótmælin voru einmitt í löndum, þar sem valdhafarnir styðja herskáa Bandaríkjastjórn, á Bretlandi, Ítalíu og Spáni.