Þótt hreinsanir í æðstu stöðum Sovétríkjanna séu hinar mestu þar eystra í þrjá áratugi, fer því fjarri, að Gorbatsjov hafi unnið sigur í styrjöldinni innan kommúnistaflokksins. Hann hefur í mesta lagi unnið hálfan varnarsigur í einni orrustu af mörgum í þessu stríði.
Erkifjandinn Ligatsjev er ekki lengur opinber hugmyndastjóri flokksins, en hann er orðinn landbúnaðarstjóri í staðinn. Hinn óvinurinn, Tsjebrikov, er ekki lengur lögreglustjóri, en er orðinn dómsmálastjóri í staðinn. Nýju störfin eru jafnvaldamikil og hin gömlu.
Athyglisvert er, að þessir tveir kunnustu andstæðingar “perestrojka” og “glasnost” bera nú ábyrgð á einmitt þeim málaflokkum, þar sem einna mest reynir á, að stefna Gorbatsjovs nái árangri sem fyrst, það er að segja í matvælaframleiðslu og í lögmætu réttarfari.
Eftir hreinsanirnar getur Gorbatsjov reitt sig á fylgi fimm af tólf miðstjórnarmönnum. Hann verður því sem fyrr að gera bandalag við miðjumenn til að fá málum sínum framgengt. Og þeir gera sér grein fyrir, að almenningur hefur hingað til ekki grætt á Gorbatsjov.
Hin nýja stefna hefur einkum komið fram í kröfum um aukin afköst og meiri samvizkusemi, en ekki enn skilað árangri í meira vöruúrvali eða betri lífskjörum. Og líklegast er, að almenningur í Sovétríkjunum verði enn um sinn að þreyja þorrann, áður en birta tekur.
Þetta veldur Gorbatsjov vandræðum, því að andstæðingar hans kenna hinni nýju og tvíeggjuðu stefnu hans um vandamálin, þótt þau séu í raun og veru afleiðing hinnar langvinnu stöðnunar á tímum fyrirrennara hans. Khrústjov féll á sínum tíma á svipuðu máli.
Ekki má vanmeta langvinna þjálfun skriffinna flokksins á öllum valdastigum. Þeim hefur hingað til tekizt að drepum flestum umbótum Gorbatsjovs á dreif. Þótt sumir þeirra séu hreinsaðir á þessum staðnum, koma þeir aftur fram í nýju hlutverki á hinum staðnum.
Aðgerðir Gorbatsjovs felast mest í hinni alkunnu aðferð að leggja niður gamlar stofnanir og búa til nýjar. Í báðum tilvikum eru þær skipaðar gömlum flokkshundum, sem kunna afskiptasemi eina til verka. Þetta fyrirbæri er meira að segja vel þekkt á Íslandi.
Vandinn felst nefnilega í valdaeinokun flokksins í Sovétríkjunum. Búast má við, að tilraunir til markaðsbúskapar, svo sem frjálsrar verðmyndunar, gangi afar stirðlega í harkalega miðstýrðu þjóðfélaga, enda hefur flestum slíkum hugmyndum verið slegið á frest.
Hinn rússneski kjarni í flokknum hefur þungar áhyggjur af áhrifum stefnu Gorbatsjovs á þjóðernishyggju og trúarofstæki í ýmsum lýðveldum ríkisins. Baltnesku ríkin eru farin að efla sjálfræði sitt, til dæmis á kostnað rússneskumælandi aðkomumanna.
Ennfremur veikir það Gorbatsjov, að öflugustu iðnaðarríkin austantjalds láta umbætur hans eins og vind um eyru þjóta. Austurþýzkir ráðamenn hafa skýrt tekið fram, að þeir anzi ekki ábendingum hans. Í Tékkóslóvakíu sitja eftir aðeins erkiíhaldssamir ráðamenn.
Kyndugt er, að hinn svokallaði “frjálslyndi” Gorbatsjov, sem segist vilja valddreifingu, tvöfaldaði embætti sín um daginn þegar hann var kosinn forseta, án umræðu á klukkustundar fundi, með 1.500 atkvæðum gegn engu. Þetta er eins og hjá Stalín í gamla daga.
Hin “rússneska kosning” Gorbatsjovs í embætti forseta varpar þó dulu á þá staðreynd, að hans bíður langvinnur skotgrafahernaður gegn valdamiklum óvinum.
Jónas Kristjánsson
DV