Takk fyrir Tyrkjaránið

Greinar

Sjóræningjar komu hingað fyrir 361 ári frá ströndum Norður-Afríku, löndum, sem þá voru stundum talin lúta Tyrkjaveldi, en nú eru kölluð Alsír og Marokkó. Sægarpar þessir voru hér kallaðir Tyrkir, fóru með litlum friði og urðu frægir í Íslandssögunni.

Um langan aldur höfum við litlar spurnir haft af löndum þessum, nema hvað Danakóngur veitti þeim þróunaraðstoð fyrir 360 árum með því að kaupa heim til Íslands hluta þess fólks, sem verið hafði í ánauð þar syðra og ekki samlagazt þjóðfélaginu fyllilega.

Nú er loksins aftur komið að þróunarbeiðni. Íslenzk skipasmíði hefur óskað eftir 130 milljón króna þróunaraðstoð við Marokkó. Með styrk til markaðsátaks í löndum hins gamla Tyrkjaveldis er áætlað, að upphæðin fari í 350 milljónir, auk 500 milljóna ríkisábyrgðar.

Mikil samkeppni er um að fá að veita þróunaraðstoð af þessu tagi. Íslendingar eru ekki einir um hið virðulega hlutverk. Forsvarsmaður skipasmiðjanna sagði í blaðaviðtali, að “Íslendingar verði að undirbjóða Norðmenn til að ná fótfestu á mikilvægum markaði”.

Ekki er einu sinni reiknað með, að skipin verði smíðuð hér norður í höfum nema að hluta, enda segir forsvarsmaður skipasmiðjanna: “Þessi samningur byggist á, að við látum smíða meirihlutann af þessu erlendis til að verða samkeppnisfærir við Norðmenn”.

Hinum fróðlegu hugmyndum hefur auðvitað verið tekið fálega í iðnaðarráðuneytinu, því að ríkiskassinn hefur sjaldan verið aumari en einmitt núna, þegar ný ríkisstjórn hefur farið hamförum í myndun milljarðasjóðs í þróunaraðstoð Stefáns Valgeirssonar.

Skipasmíðar eiga erfitt uppdráttar víðar en hér á landi. Þær hafa að mestu lagzt niður í Vestur-Evrópu. Finnar héldu lengi út við smíði ísbrjóta og olíuborpalla, en eru nú í vandræðum með verkefni. Við vitum, hvernig fór fyrir Kochum og öðrum smiðjum í Svíþjóð.

Rúmlega helmingur allra skipa er nú smíðaður í Japan og Suður-Kóreu. Síðarnefnda landið hefur á stuttum tíma stokkið úr 3% heimsframleiðslunnar á skipum í 37%. Engin leið er fyrir Vesturlönd að keppa við verðið í Kóreu, nema með miklum og vaxandi ríkisstuðningi.

Á sama tíma hefur orðið mikill samdráttur í skipasmíðum heimsins. Ekki er fyrirsjáanlegt annað en að svo verði áfram. Það er því lítil framtíð í því fyrir okkur að byggja upp aðra skipasmíði en þá, sem felst í viðhaldi og endurbótum þeirra skipa, sem fyrir eru.

Við berum þyngri byrði en aðrar þjóðir af starfsemi, sem ekki er samkeppnishæf í alþjóðlegu samhengi. Við höfum nóg með landbúnaðinn, sem kostar okkur meira á hvern íbúa en hernaðarútgjöld kosta íbúa annarra landa. Við getum ekki bætt skipasmíðum ofan á það.

Við eigum að láta Norðmenn og aðra olíuauðkýfinga um þróunaraðstoð af því tagi, sem Marokkómenn hafa beðið um. Marokkó er stórskuldugt ríki, sem skuldar meira en ársframleiðslu sína. Það hefur lítið lánstraust, er í 73. sæti af 112 ríkjum á alþjóðaskránni.

Verið er að bjóða upp á eins konar Nígeríuviðskipti, sem munu reynast þungbær að leiðarlokum. Málið fer að kárna fyrir alvöru, ef Marokkómenn geta að venju ekki staðið í skilum og íslenzkir skattgreiðendur verða enn að hlaupa undir bagga og borga allan pakkann.

Engar líkur eru á, að stjórnmálamenn okkar láti glepjast í máli þessu. Nýtt Tyrkjarán verður því ekki að veruleika að sinni. En við skulum vera á verði.

Jónas Kristjánsson

DV