Tapað spil sveitarfélaga

Greinar

Þenslan í atvinnulífinu hefur gefið mörgum kennurum tækifæri til að láta freistast til annarra starfa í þjóðfélaginu. Það auðveldar þeim að segja upp störfum hópum saman. Þeir vita, að þjóðfélagið vill nýta vinnu flestra þeirra á öðrum sviðum, ef þeir vilja sjálfir.

Á nýliðnum tíma stöðnunar í þjóðfélaginu voru tækifæri kennara mun færri en nú. Þá voru öryggi og frí í meiri metum en nú, þegar sóknin í vinnuafl kallar á samanburð í hreinum og tærum krónum. Þá háðu kennarar fræg verkföll án þess að ná neinum árangri.

Nú er verkfall aftur í aðsigi, en aðstæður ólíkar. Nú standa nýir viðsemjendur kennara, sveitarfélögin, frammi fyrir, að langvinnur brestur verði í skólastarfi af völdum kjaradeilunnar. Margir kennarar eru að hverfa til annarra starfa og enn fleiri hugsa sitt ráð.

Efnislega er staðan erfið. Sveitarfélögin horfa á heildargreiðslur til kennara og sjá fram á að geta ekki staðið undir umtalsverðum hækkunum. Kennarar horfa á launagreiðslur frjálsa vinnumarkaðarins og telja sig vera á skítalaunum, sem ekki standi undir nauðsynjum.

Sveitarfélögin eru nýtekin við fyrra hlutverki ríkisins í rekstri grunnskóla. Þau hafa misjafnar aðstæður. Sums staðar njóta skólar forgangs, en annars staðar eru þeir taldir hálfgerður lúxus. Sums staðar vilja kennarar vera og annars staðar vilja þeir helzt ekki þurfa að búa.

Víða sitja skólastjórar og kennarar í sveitarstjórnum og reyna að setja skólamálin ofar í forgangsröðina. Víða eru kjarasamningar rifnir að lokinni undirskrift og kennurum greitt það, sem þeir þurfa til þess að vilja halda áfram að vinna á tiltölulega afskekktum stöðum.

Þannig eru sveitarfélög ekki aðeins í samkeppni við frjálsa vinnumarkaðinn um vinnu kennaramenntaðs fólks. Þau eru einnig í samkeppni hvert við annað um að fá til sín betri kennara eða bara einhverja kennara. Auglýsingar frá skólum úti á landi bera þessa merki.

Að öllu samanlögðu er samningsaðstaða kennara sterkari en áður og viðsemjenda þeirra lakari en áður. Lögmál markaðarins, sem áður voru óhagstæð kennurum, hafa snúizt þeim í hag. Þess vegna eru kröfur þeirra að þessu sinni dýrari og stífari en nokkru sinni fyrr.

Spurningar dagsins eru tæpast þær, hversu mikið kennarar eigi skilið að fá í laun eða hversu mikið sveitarfélög hafi ráð á að greiða kennurum. Þetta eru sanngirnisspurningar, sem markaðslögmálin telja sig ekki þurfa að svara og þurfa sennilega ekki að svara.

Spurningin er ekki heldur sú, hvort samfélagið eigi að greiða kennurum svo mikið, að færustu menn flykkist til slíkra starfa, skólarnir batni og nemendur nái betri árangri. Rannsóknir benda til, að lítið sem ekkert samband sé milli skólakostnaðar og árangurs skóla í starfi.

Spurningarnar eru fremur þær, hversu langt kennarar geti nýtt sér bætta samningsstöðu gagnvart sveitarfélögum, sem verða annars vegar að horfa í budduna og hins vegar til kosninganna, sem verða að vori. Þau þurfa að mæta kjósendum með niðurstöðuna.

Það er ekki auðvelt að útskýra fyrir kjósendum tveggja prósentustiga hækkun útsvars vegna kjarasamninga. En það getur verið enn erfiðara að útskýra fyrir kjósendum, hvers vegna skólahald fór enn einu sinni úr skorðum og það hastarlegar en nokkru sinni fyrr.

Niðurstaðan verður sennilega, að sveitarfélögin munu teygja sig mun lengra í átt til kennara en þau hafa hingað til talið sér fjárhagslega og pólitískt kleift.

Jónas Kristjánsson

DV