Tapið túlkað á brott.

Greinar

Í túlkun hinna sauðtryggu málgagna á kosningaúrslitunum þykir hverjum sinn fugl fagur að venju. Sjónhverfingamenn færa þar langsótt rök að sigri sinna manna og ósigri annarra, þvert ofan í sjálf kosningaúrslitin.

Í Morgunblaðinu er fall Geirs Hallgrímssonar af þingi orðið að persónulegum sigri hans úti á landi, væntanlega einnig í kjördæmum stjórnarsinnanna Friðjóns og Pálma, en ósigurinn í Reykjavík hins vegar ómögulegum Albert að kenna.

Hin raunverulega ástæða þess, að Sjálfstæðisflokkurinn vann ekki á í Reykjavík eins og víðast úti á landi, er samt sú, að hópur sjálfstæðismanna kastaði atkvæði sínu á Alþýðuflokkinn í innanflokks mótmælaskyni.

Þetta hefur oft komið fyrir áður og af ýmsum ástæðum. Í þetta sinn voru ýmsir hörðustu Gunnarsmennirnir að þakka Geir fyrir frægan Ísafjarðarfund og senda honum sína síðustu kveðju, í von um, að hann félli af þingi.

Þeim tókst þetta, nánast fyrir tilviljun. Á það má líta sem eins konar áminningu til flokksforustunnar um, að hún hefur ekki enn gert upp við fortíðina, jafnvel þótt Morgunblaðið tali ekki að sinni um maðka í mysunni hjá Friðjóni og Pálma.

Í Þjóðviljanum er ósigur Alþýðubandalagsins orðinn að frækilegum raunsigri, bæði almennt séð og í ýmsum sérmálum á borð við Ísal. Þar tala menn t.d. um varnarsigur í samanburði við það, sem búizt hafi verið við fyrir kosningar.

Í stað þess að leggja áherzlu á samanburð milli þingkosninga sér á parti, byggðakosninga sér á parti, skoðanakannana sér á parti og fróðra manna áliti sér á parti, er þessu öllu grautað saman eftir hentugleikum.

Að vísu hefur nokkurt gildi að bera kosningaúrslit í alþingiskosningum saman við úrslit í byggðakosningum, niðurstöður skoðanakannana og fróðra manna mat á stöðunni. En aðalsamanburðurinn hlýtur að vera við fyrri þingkosningar.

Þannig vann Bandalag jafnaðarmanna 7,3%, Samtök um kvennalista 5,5% og Sjálfstæðisflokkurinn 3,3%, en Alþýðubandalagið tapaði 2,4%, Alþýðuflokkurinn 5,8% og Framsóknarflokkurinn 5,9%. Þetta eru hinar undanbragðalausu staðreyndir.

Alþýðubandalagið sá fyrir ósigurinn og varaði kjósendur við svokallaðri “hægri sveiflu”, sem væri að gleypa landið. Þessi sveifla var auðvitað að mestu leyti ímyndun, en var máluð á vegginn til að auðvelda síðari túlkun.

Eftir kosningar gat Þjóðviljinn svo barið sér á brjóst og sagt, að hægri sveiflan hafi verið stöðvuð í frækilegri lokasókn Alþýðubandalagsins í kosningabaráttunni. Tapið upp á 2,4% er gersamlega fallið í skuggann.

Með þessu er raunverulega verið að reyna að strika yfir nokkur síðustu árin og láta líta svo út sem öll fortíðin hafi ekki verið meiri en ein eða tvær vikur, það er að segja tíminn frá síðustu skoðanakönnunum.

Auðvitað brosa gamlir jálkar í skoðanakönnunum, þegar reiknimeistarar flokkanna vilja taka þær til samanburðar frekar en síðustu eða fyrri alþingiskosningar. Jálkarnir vita nefnilega, að kannanir eru ekki kosningar, þótt góðar séu.

Skemmtilegust var þó túlkun úrslitanna hjá frambjóðandanum, sem fékk 411 atkvæði og kolféll. Að hans mati voru það skoðanakannanirnar, sem biðu ósigur, en ekki hann sjálfur. Nei, að sjálfsögðu lýtur enginn í lægra haldi í kosningum!

Jónas Kristjánsson

DV