Taplið nöldrar á Fiskiþingi

Greinar

Sumir líta á framtíðina sem verkefni, en aðrir sem vandamál. Sumir mæta örlögunum á þann hátt, að þeir snúa þeim sér í hag, en aðrir telja sig dæmda til að sitja eftir í tapliðinu. Oft þarf opinn huga og djarfa hugsun til að sjá leiðir til vinnings í óþægilegri taflstöðu.

Fyrir hálfu þriðja ári lagði Orri Vigfússon til, að þjóðir Norður-Atlantshafs mynduðu gæðabandalag um fisk og kæmu sér upp virtu og viðurkenndu vörumerki, sem ábyrgðist gæði, hreinlæti og viðnám gegn ofveiði á grundvelli áreiðanlegs og heiðarlegs vottunarkerfis.

Orri taldi, að staðlar vottunarkerfisins ættu að ná til gæða og hreinlætis við fiskvinnslu, svo og þess, að fiskurinn væri hvorki veiddur úr ofveiddum stofnum né með veiðarfærum, sem valda spjöllum. Hann vildi aðild hófsamra umhverfissamtaka að þessum stöðlum.

Hugmyndin er til þess fallin að framkalla smám saman í hugum neytenda víða um heim ímynd hreinnar og góðrar framleiðslu, sem beri af öðrum vörum í heimi mengunar og óhollustu. Orri vildi, að við yrðum á undan öðrum að laga okkur að nýjum aðstæðum.

Íslendingar báru ekki gæfu til að taka þetta merki upp fyrir hálfu þriðja ári. Umheimurinn stóð hins vegar ekki í stað. Framtakið kom frá stærsta kaupanda sjávarafurða í heiminum, Unilever, og stærstu náttúruverndarsamtökum heimsins, World Wildlife Fund.

Nú er þessi hugmynd komin miklu lengra. Stofnað hefur verið Marine Stewartship Council, MSC, sem gæðastimplar sjávarafurðir, óháð stjórnvöldum og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Óþarfi er að spyrja, hvort Íslendingar séu með í þessu vinningsliði framtíðarinnar.

Þar sem íslenzkur sjávarútvegur stenzt flestar, en ekki allar kröfur nýju vottunarstofunnar, hefur MSC hvatt Íslendinga til að taka upp kerfið. Engin viðbrögð hafa komið fram af íslenzkri hálfu, enda sjá menn svart, ef útlendingar ætla að hafa afskipti af okkar málum.

Á Fiskiþingi, sem haldið var í síðustu viku, kom fram hjá ræðumönnum, að ríkisstofnanir og samtök í sjávarútvegi hafa ákveðið að vera í tapliðinu og horfa með skelfingu á, að hataðir umhverfissinnar úti í heimi fari að stjórna því, hvort fólk borði fisk héðan.

Í stað þess að hlíta forsjá Orra og vera fremstir í vinningsliðinu með þann fisk, sem þekktastur verður í heiminum fyrir alþjóðlegan gæðastimpil, þá hafa Íslendingar ákveðið að hafa allt á hornum sér og verða illræmdir fyrir að geta ekki fengið að nota gæðastimpilinn.

Þetta er skortur á aðlögunarhæfni. Ráðamenn í stofnunum og samtökum eru svo blindaðir af óbeit á umhverfissamtökum og útlendum reglum, að þeir draga lappirnar sem mest þeir geta og munu áður en yfir lýkur valda íslenzkum sjávarútvegi stórfelldu markaðstjóni.

Úti í heimi keppast aðrir við að vera í vinningsliðinu og snúa örlögunum sér í hag. Í þeim hópi eru umsvifamikil heildsölu- og dreifingarfyrirtæki í sjávarútvegi og keðjur stórmarkaða. Stuðningur við stimpilinn er “tilfinnanlegur” eins og það var orðað á Fiskiþingi.

Formaður Vélstjórafélagsins útmálaði fyrir Fiskiþingi, að vond umhverfissamtök úti í heimi væru að ráðast á íslenzkan sjávarútveg. Þetta er nákvæmlega það, sem Íslendingar vilja heyra. Menn vilja gráta örlög sín og kenna vondum útlendingum um, hvernig komið sé.

Himinn og haf er milli Orra Vigfússonar og Helga Laxdal; þeirra, sem líta á framtíðina sem verkefni og hinna, sem líta á hana sem vandamál.

Jónas Kristjánsson

DV