Taprekstur á orkuveri

Greinar

Gífurlegur taprekstur verður á fyrirhugaðri Fljótsdalsvirkjun, ef miðað er við núverandi álverð á heimsmarkaði. Reikna má með, að tapið geti numið yfir 10 milljörðum króna á ári, áður en byrjað er að reikna með mengunargjaldi og verðgildi Eyjabakkasvæðisins.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur óbeint viðurkennt, að þetta sé rétt, en telur, að álverð og þar af leiðandi orkuverð muni hækka nægilega á næstu árum til að brúa bilið. Þetta getur varla talizt girnilegt veganesti fyrir orkuver, sem meirihluti þjóðarinnar vill feigt.

Skýrsla Landsvirkjunar um málið er fátæklegri en óttazt hafði verið. Hún er samfelld varnarræða, sem afgreiðir ekki út af borðinu neina af röksemdunum gegn byggingu orkuversins. Hún er til þess fallin að styrkja lesendur í þeirri trú, að Fljótsdalsvirkjun sé óráðleg.

Skýrslan gefur engar sannfærandi skýringar á þeirri spá, að orkuverð frá Fljótsdalsvirkjun verði mun hærra en orkuverð til annarrar stóriðju, sem fyrir er í landinu. Fyrirhuguðu álveri á Reyðarfirði mun þó fylgja nýstárlegur kostnaður af tilheyrandi mengunarkvóta.

Hvort sem álverið borgar þennan mengunarkvóta eða ríkið tekur á sig að greiða hann með því að neita sér um hann á einhverju öðru sviði, þá er hann kostnaður, sem lendir á þjóðinni með einhverjum hætti. Nú þegar er hægt að meta, hvaða upphæðir þetta verða.

Með fjölþjóðasamningum gegn mengun mun senn hefjast kaup og sala á rétti til að menga umhverfið. Markaðslögmálin munu fljótlega finna verðlag á þessum kvóta eins og öðrum kvóta. En óhætt er að spá því nú þegar, að kostnaðartölur mengunarkvóta verða háar.

Íslendingar lifa ekki í lausu lofti. Við erum háðari umheiminum en flestar aðrar þjóðir, af því að útflutningur er óvenjulega stór hluti þjóðarframleiðslunnar. Við neyðumst því til að fara að fjölþjóðlegum viðskiptareglum, ef við ætlum áfram að selja sjávarafurðir.

Það er sama, hversu miklar undanþágur við fáum frá mengunarkvóta. Undanþágur hafa sama verðgildi og kvótinn. Hver einasta framkvæmd, sem framkallar mengun, tekur af kvótanum eða undanþágunni og þarf að gera ráð fyrir því í arðsemisútreikningum.

Í ljósi mengunarkvótans er í hæsta máta óráðlegt að gera ráð fyrir, að kaupandi orkunnar fyrir austan geti borgað miklu hærra verð en stóriðja greiðir á Íslandi um þessar mundir. Og þá er enn alveg eftir að meta verðgildi Eyjabakkasvæðisins sem einstæðrar náttúruperlu.

Ekkert samkomulag er um þessar mundir um verðgildi Eyjabakka. Í skýrslu Landsvirkjunar er gert ráð fyrir, að Eyjabakkar kosti ekki krónu. Jón Kristjánsson alþingismaður mundi kannski verðleggja þá upp á túkall og aðrir fara hærra, sumir upp í tugi milljarða.

Til þess að hægt sé að meta arðsemi Fljótsdalsvirkjunar þarf að krónusetja fórnarkostnaðinn af Eyjabökkum. Menn þurfa hreinlega að verðleggja, hvað það kosti að eyðileggja óafturkræft þessa eign afkomenda okkar, sem núverandi kynslóðir hafa fengið til varðveizlu.

Þegar sýnt hefur verið fram á, að upprennandi mengunarkvóti hindri, að Landsvirkjun fái hærra verð fyrir þessa orku en aðra, sem hún hefur á boðstólum, og að Eyjabakkar séu mikils virði í krónum talið, stendur eftir, að árlegt tugmilljarðatap er í uppsiglingu.

Enda er Fljótsdalsvirkjun ekki ætluð arðsemi, heldur er hún leifar af gamalli byggðastefnu í stíl við skurðina, sem grafnir voru á kostnað skattborgaranna.

Jónas Kristjánsson

DV