Ef Saddam Hussein og Ba’ath-flokkurinn í Írak sleppa fyrir horn í pattstöðunni við Persaflóa, má búast við frekari fréttum frá Írak eftir um það bil fimm ár. Þá mun Saddam Hussein eða arftaki hans hrista nýsmíðuð atómvopn framan í umheiminn til að fá sitt fram.
Saddam Hussein hefur áður komizt að raun um, að hann getur notað efnavopn gegn umheiminum og gegn minnihlutahópum í eigin landi. Hann hefur áður komizt að raun um, að Vesturlandabúar fara á taugum, ef óvinir þeirra taka gísla. Það er vopnið, sem hann beitir nú.
Ef taugastríðið leiðir til samkomulags um, að her Íraks hverfi frá Kúvæt, en Írak haldi samt einhverjum olíulindum, halda Saddam Hussein og Ba’ath-flokkurinn stöðu sinni heima fyrir. Patt í styrjöldinni verður túlkað sem sigur, alveg eins og patt í stríðinu við Íran.
Verið getur, að vestrænn ótti við átök og harmleik leiði til samkomulags um, að Saddam Hussein fái að halda andlitinu. Slík niðurstaða er mun verri en átök og harmleikur, því að hún leiðir til enn verri átaka og meiri harmleiks, þegar Írak hefur eignazt atómvopn.
Saddam Hussein hefur áður beitt efnavopnum eins og honum þóknast. Hann beitir nú gíslavopnum eins og honum þóknast. Hann mun beita atómvopnum eins og honum þóknast. Hann verður eftir fimm ár í enn betri aðstöðu en nú til að breiða út stjórnarfar sitt.
Tíminn rennur smám saman út í sandinn. Almenningur í Bandaríkjunum verður þreyttur á þessu stríði, eins og hann varð þreyttur á varðgæzlunni í Líbanon og stríðinu í Vietnam. Og almenningur í Vestur-Evrópu mun tregðast við að taka á sig hluta af herkostnaðinum.
Japan og Vestur-Evrópa skaðast meira en Bandaríkin á valdadraumum Saddams Husseins. Þessir auðugu bandamenn eru samt ófærir um að gæta hagsmuna lýðræðis við Persaflóa. Ef Bandaríkin bila líka, hafa Vesturlönd í heild beðið ósigur gegn trylltu smáríki.
Við sjáum fyrir okkur rifrildið, sem byrjar, ef Íslendingar verða beðnir um að leggja af mörkum sitt litla brot af herkostnaðinum við Persaflóa, svo að við tökum fjárhagslega þátt í að verja það þjóðskipulag, sem við njótum. Við höfum alltaf viljað, að aðrir borgi.
Hinn mikli her Bandaríkjanna sekkur í sandinn í Arabíu. Þar verður smám saman farið að líta á hann sem hernámslið. Saddam Hussein hefur þegar náð nokkrum árangri við að æsa íslama gegn þeim prinsum, sem leyfi vantrúarhundum að saurga helgistaði.
Þótt tímans rás hafi þannig ýmsar hættur í för með sér, hafa líka vaknað ýmsar vonir. Stjórnvöld í hinum fjölmennu ríkjum Egypta og Tyrkja hafa komið fram á mjög ábyrgan hátt í stríði þessu og virðast njóta til þess töluverðs stuðnings meðal almennings í þessum löndum.
Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að íslamskar þjóðir geti eins og kristnar hagnýtt sér kosti lýðræðis, úr því að Japanir og fleiri þjóðir í Austurlöndum hafa getað það. Til þess þurfa þær að hafna trúarofstæki íslamsklerka og þjóðernisofstæki Saddams Husseins.
Ef Saddam Hussein og Ba’ath-flokkurinn sleppa fyrir horn í þessu stríði, munu íslamar víða um lönd telja samvizkulausar ofbeldis- og klækjaleiðir vænlegri til árangurs en leiðir þeirra þjóða, sem komnar eru nokkuð á veg til lýðræðis, svo sem Tyrkja og Egypta.
Við Persaflóa hefur verið sett upp taflborð, þar sem mannkynið teflir um meira eða minna lýðræði, meiri eða minni mannréttindi, meira eða minna ljós.
Jónas Kristjánsson
DV